Spurt og svarað

25. október 2009

Viðkvæmar geirvörtur og brjóstagjöf

Góðan dag og kærar þakkir fyrir þennan frábæra vef!

 Ég er gengin tæpar 28 vikur með mitt annað barn og er aðeins farin að kvíða brjóstagjöfinni (miklu meira en fæðingunni nokkurn tíman). Málið er að ég hef alltaf verið með frekar viðkvæmar geirvörtur. Finnst ekkert voðalega þægilegt að láta koma mikið við þær. Á síðustu meðgöngu fór ég til Spánar gengin 12 vikur og eftir sólina þar voru þær voðalega þurrar og með hrúðri á sem ég hef bara ekki losnað við (5 ár síðan). Ég sýndi ljósunni minni þetta og hún sagði þetta í lagi. Svo þegar dóttir mín fæddist fékk ég strax svakaleg sár á geirvörturnar og sveppasýkingu í kjölfarið og var ég þannig í 2 mánuði áður en brjóstaráðgjafi gjörsamlega bjargaði mér. Restin af brjóstagjöfinni gekk  vel og var hún á brjósti í 9 mánuði. Fljótlega eftir að hún hætti myndaðist aftur þetta hrúður og hef ég sýnt kvennsjúkdómalækni mínum þetta og hún ráðlagði mér að bera á þetta AD krem og mér finnst það hjálpa aðeins.Nú veit ég ekki hvort það sé þessu hrúðri að kenna eða mínum viðkvæmu geirvörtum að ég fékk þessi sár síðast eða að stelpan tók brjóstið ekki rétt í upphafi. Mig langar því að spyrja hvort ég get gert eitthvað til að "laga" geirvörturnar(hef verið að bera á mig Lansinho núna og finnst þetta ekkert lagast). Einnig hvort það sé hægt að fá viðtal hjá brjóstaráðgjafa á fæðingardeild þegar barnið verður fætt upp á að lenda ekki í þessu "veseni" aftur.

Kær kveðja.

 


Sæl og blessuð!

Það getur hjálpað að reyna að losna við svona hrúður strax á meðgöngunni. Til þess er notað vatn og líka olía og hrúðrið kroppað af. Þá er ný og fín húð undir.

Það skiptir líka máli að fá góða kennslu í að leggja rétt á brjóst í upphafi til að forðast að fá sár. Sár koma ekki vegna hrúðra.

Það ætti að vera tiltölulega auðvelt fyrir þig að fá viðtal við brjóstagjafaráðgjafa fljótlega eftir fæðinguna en ég myndi ráðleggja þér að panta viðtal hjá henni strax á meðgöngunni til að undirbúa þig betur.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi
25. október 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.