Viðkvæmar vörtur og geirvörtusvæði

27.01.2013
Sæl og kærar þakkir fyrir frábæran vef! 
Ég finn yfirleitt alltaf það sem ég leita að í safninu ykkar. Mig langaði samt að spyrja aðeins betur út í viðkvæmar geirvörtur. Ég geng nú með þriðja barnið og strax farin að kvíða brjóstagjöfinni. Ég var með fyrri strákinn á brjósti þar til hann varð 7 mánaða en var ekkert að þrjóskast með seinni strákinn og hætti eftir 4 mánuði. Ég er hins vegar þrjósk og langar að geta gefið brjóst, sérstaklega vegna þægindanna og þurfa ekki að standa í pelastússi. Ég fæ mjög mikla mjólk (ljósmóðirin tæmdi hálfan lítra úr brjóstunum á mér í eitt skipti) og strákarnir mínir hafa verið frekar latir að súpa. Í kjölfarið fer þetta brösulega af stað, of mikið framboð en lítil eftirspurn. Ég fæ stíflur og stálma og öll þau skemmtilegheit. Í bæði skiptin reyndi ég að finna út af hverju mér fyndist óþægilegt að gefa brjóst. Reyndi lyf við æðasamdrætti, sveppasýkingu og bara allt sem að ljósmæðrunum datt í hug. Ég hef hins vegar aldrei fengið sár eða þannig óþægindi. Ég fann strax og ég varð ólétt hversu viðkvæm ég er og fæ hálfgerða ógleðistilfinningu að hugsa til þess að einhver verði hangandi á vörtunum á mér eftir nokkurra mánuði (er komin 24 vikur). Það var reyndar eitt sem ég prófaði lítið og það var mexíkó hatturinn en ég er staðráðin í að prófa hann betur núna. Hann fór svo mikið í taugarnar á mér, svona aðskotahlutur, en örugglega betra en að þvo marga pela á dag. Eru einhver önnur ráð sem þið hafið við svona "aumingjavörtum"?Sæl og blessuð!
Það er erfitt að byrja brjóstagjöf með erfiða reynslu á bakinu og því mjög jákvætt að þú skulir vilja undirbúa þig. Þú talar um tvíþætt vandamál. Annars vegar viðkvæmar vörtur og hins vegar offramleiðslu mjólkur. Viðkvæmt vörtusvæði er sérlega erfitt á meðgöngunni og fyrstu daga brjóstagjafar. Eftir það er vandamálið úr sögunni ef allt er eðlilegt. Það er lítið hægt að gera til að koma í veg fyrir þetta vandamál og Mexicanahattur myndi að sjálfsögðu aðeins gera ástandið verra og meira langvarandi. Reyndu frekar verkjatöflur á þessu tímabili. Offramleiðslu mjólkur er hins vegar afar auðvelt að laga. Þá gildir reglan að stilla framleiðsluna að þörfum barnsins. Aðeins gefa barninu brjóst þegar það biður um og aðeins annað brjóstið í gjöf. Aldrei að mjólka brjóstin eða örva að öðru leyti. Læra að stoppa allan leka með dyrabjöllu eða klemmu.Á þennan hátt nærð þú stjórn á framleiðslunni. Ef svo framleiðsla ætlar að fara framúr þörfum barnsins er farið að gefa sama brjóstið tvisvar eða þrisvar í röð í nokkra daga.Þessar aðferðir virka yfirleitt mjög vel og jafnvel má bæta við fleirum ef þarf.
Vona að vel gangi í þetta sinn.


Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. janúar 2013.