Spurt og svarað

30. ágúst 2005

Vökvaskortur, er með barn á brjósti

Halló og takk fyrir fróðlegan vef!

Þannig er mál með vexti að ég er með matareitrun og hef haft vatnskenndan niðurgang og uppköst í 5 daga. Ég á 7 vikna dreng sem er á brjósti, ég hef alltaf mjólkað mjög vel en nú finnst mér vera svo lítið í mér og erftitt fyrir hann að ná úr þeim.  Ég leyfi honum að sjúga oft og reyni að drekka, en held engu niðri. Hvernig get ég snúið mér í þessu, ég vil helst ekki þurfa að gefa honum þurrmjólk og missa niður mjólkina.  Hvenær veit ég þegar ofþornun á sér stað,  finnst ég vera svo þurr í munninum.

Kveðja, vökvalausa konan.

.........................................................................

Sæl og blessuð vökvalaus.

Það er alltaf álag á líkamann þegar maður verður veikur og allt álag getur haft einhver áhrif á brjóstagjöfina þótt venjulega séu það nú óveruleg áhrif. Líkaminn hefur einstakt lag á að laga ástandið til handa barninu þannig að það líði ekki skort. Skorturinn bitnar allur á þér þannig að þú þarft að einbeita þér að því. Reyndu að drekka í mjög litlum skömmtum, bara sopa hér og þar á stangli. Borðaðu eitthvað vatnsríkt sem fer vel í maga- vatnsmelónu, hlunka o.s.frv.. Þú átt ekki að gefa þurrmjólk nema þú viljir missa niður mjólkina. Það er öruggasta leiðin til þess. Leyfðu barninu bara að sjúga eins og það vill. Það framleiðist þá mjólk jafnóðum.

Yfirleitt gengur matareitrun tiltölulega fljótt yfir þannig að ef þú ert ekki á batavegi núna verðurðu að fá ráðleggingar frá lækni og þá einhverja betri meðferð.

Með von um að heilsan fari skánandi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. ágúst 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.