Vökvaþörf mjólkandi mæðra

03.04.2006

Sæl og kærar þakkir fyrir einstaklega góðan og fróðlegan vef.

Ég hef alltaf heyrt að það sé nauðsynlegt að drekka a.m.k. 2 lítra á dag til að ná upp/viðhalda hámarksmagni mjólkur þegar maður er með barn á brjósti. Mér hefur reynst þetta afar erfitt þar sem ég drekk að jafnaði frekar lítið. Nú var ég að lesa bandaríska grein þar sem segir að þetta sé ekki rétt. Það nægi að drekka eins og mann langar, ef mann þyrsti eigi maður að drekka til að svala þorstanum en það sé ekki nauðsynlegt að þvinga sig til að drekka ef maður finnur ekki þörfina sjálfur.  Hvert er ykkar álit á þessu?

Kær kveðja og fyrirfram þökk.


Sæl og blessuð.

Það er talað um að konur yfir höfuð þurfi að drekka um 2 lítra á dag til að fullnægja vökvaþörf sinni. Það er langt síðan að það datt út að það þyrfti að drekka eitthvað ákveðið í brjóstagjöf. Það hefur verið lögð áhersla á það í heilbrigðisgeiranum að konur svöruðu einungis þorsta sínum. Það hafa rannsóknir sýnt að konur sem eru að pína í sig vökva sem þær hafa ekki lyst á framleiða allt að 25% minni mjólk. Sumar þeirra lenda í vandræðum vegna lítillar mjólkurframleiðslu.

Þannig að þér er óhætt að drekka bara það sem þig lystir og ekkert meira. Og endilega hafðu það fjölbreytt: Vatn, mjólk, ávaxtasafar, grænmetissafar, gos, te eða kaffi, kókó, búst og hvað eina.

Bestu matar og drykkjarkveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. apríl 2006.