Spurt og svarað

29. október 2006

Ýtir geirvörtunni út úr sér

Ég á 8 vikna dóttir og hefur brjóstagjöfin gengið nokkuð vel hingað til. Ég reyndar þurfti að nota mexíkanahatta til að byrja með því ég var með svo flatar geirvörtur en þetta fór allt á flug þegar stelpan var 4 daga gömul og hefur sem sagt bara gengið vel þangað til núna fyrir svona viku síðan. Þetta byrjaði á því að stelpan fór að ýta geirvörtunni alltaf smátt og smátt út úr sér á meðan hún var að drekka og endaði þetta með því að hún kannski ýtti henni allri út og fór svo bara að gráta þegar hún uppgötvaði að geirvartan var farin. Ég var alltaf að reyna að troða geirvörtunni meira og meira upp í hana á meðan ég gaf henni en þá varð hún bara alveg brjáluð. Núna fæ ég hana ómögulega til að opna munninn nógu mikið svo ég bara komi geirvörtunni upp í hana. Hún vill rétt opna munninn aðeins og ef hún fær ekki geirvörtuna upp í sig þá þegar munnurinn er pínulítið opinn fer hún að hágráta. Ég hef þá stundum notað tækifærið og troðið geirvörtunni upp í hana meðan hún grætur en þá bara ýtir hún henni smátt og smátt aftur út úr sér. Það hefur ekki virkað að nudda geirvörtunni í efri vörina á henni til að fá hana til að opna því þó hún opni þá ýtir hún alltaf geirvörtunni smátt og smátt út. Ég er því í algjörum vandræðum en mér finnst þetta svo rosalega leiðinlegt að því að þetta gekk svo vel fyrst. Er eitthvað sem ég get gert? Svo er það annað. Það er með tímann sem hún er á brjóstinu. Ég fæ hana kannski til að drekka í 5 mínútur núna og þá vill hún fá hitt brjóstið (þetta var ekki svona). Það er eins og hún nenni ekki að klára brjóstið, vill bara hætta þegar hún þarf að fara að sjúga fastar og þykkari mjólkin kemur. Ef ég reyni að „pína“ hana til að halda áfram á sama brjóstinu verður hún alveg brjáluð og á endanum gefst ég upp og skipti um brjóst. Hún er því, að ég held, aldrei að fá þykkari mjólkina og verður því kannski aldrei nógu mettuð. Hún er líka alveg hætt að sofna á brjóstinu hjá mér eins og hún gerði alltaf. Eftir 5 mín á báðum brjóstum (10 mínútur í heildina) fer hún bara að gráta og þarf ég að svæfa hana með snuði því hún vill alls ekki meira þó hún virki svöng. Ég fór með hana til læknis um daginn vegna smá kvefs og þá kom í ljós að hún hafði bara þyngst um rúm 60 grömm vikuna á undan (síðan í 6 vikna skoðuninni) og hafa hægðirnar hennar breyst samhliða þessu. Þær urðu skyndilega hálf hvítar og kögglóttar og þróuðust smátt og smátt yfir í að vera mjög grænar og þunnar en samt með smá kögglum í. Hjúkrunarfræðingurinn og læknirinn sem skoðuðu hana höfðu í rauninni ekkert um þetta að segja og sendu mig bara heim með hana aftur.

Ég veit að þessi fyrirspurn er orðin rosalega löng en ég vildi bara vera eins nákvæm og ég gæti. Mér líður alveg rosalega illa út af þessu því það var alltaf draumurinn minn að hafa stelpuna eins lengi á brjósti og ég vildi, í það minnsta í 6 mánuði en núna er ég alveg á mörkunum að gefast bara upp og fara og kaupa þurrmjólk til að gefa henni, þá kannski fengi hún nóg.

Með von um aðstoð.

Kær kveðja, Brjóstamamman.Sæl og blessuð Brjóstamamma.

Það getur verið mjög erfitt að eiga við börn þegar þau láta svona og ekki gott að vita hver orsökin er. Dóttir þín er náttúrulega á þeim aldri sem hegðunarbreytingarnar eru mest áberandi og það er náttúrulega partur af þessu. En það er meira en það. Hún virkar miðað við lýsinguna eins og hún sé orðin svo fráhverf brjóstinu og næstum því komin í verkfall. Þú þarft að reyna að breyta því. Já, ég veit að það er ekki svo einfalt. Byrjaðu á að hægja á flæðinu í byrjun eins og ég hef lýst hér áður. Þá klípurðu saman brjóstið fremst svo það sprautist ekki úr því þegar losunarviðbragðið byrjar. Svo gæti líka hjálpað að breyta um gjafastellingar, kannski í þá átt að halda betur utan um hana. Það er erfitt að troða vörtunni langt upp í barn sem er orðið þetta gamalt og streitist á móti þannig að kannski er betra að reyna að svindla henni upp í hana. Prófaðu að fara inn í munninn frá munnvikinu, prófaðu að láta putta fara með. Prófaðu allt sem þér dettur í hug. Mér finnst mæður alltaf svo hugmyndaríkar. Það er slæmt að hægðirnar hennar hafi breyst svona samfara þessum hegðunarbreytingum. Það er rétt hjá þér að það bendir til að hún sé ekki að fá næga eftirmjólk. Þannig að ef þetta heldur áfram að hún sjúgi svona stutt og sé ófáanleg til að halda áfram þá þýðir það að þú verður að mjólka brjóstið sjálf áfram og gefa henni með skeið eða sprautu.
En endilega ekki gefast upp. Það er partur af brjóstagjafareynslunni að fara í gegnum hin ýmsu erfiðleikatímabil og þau eru mjög þroskandi (þegar maður lítur til baka).

Gangi þér vel.

Baráttukveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. október 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.