Zoloft og brjóstagjöf

29.11.2012

Sæl!

 Ég er að taka Zoloft og er með tvíburana mína a brjósti. Þeir eru 8 vikna og ég hef verið að taka 50 mg. Zoloft í viku núna. Og mér finnst mjólkin vera að hverfa úr brjóstunum á mér eftir að ég byrjaði að taka lyfið. Ég fann alltaf að eftir 3 tíma voru brjóstin stútfull. En núna finnst mér þau alltaf galtóm. Getur það verið?

 

Sæl og blessuð!

Nei, það getur ekki verið. Þetta er meira tilfinning þín en raunveruleikinn. Það er einmitt um 8 vikum eftir fæðingu sem konur eiga að hætta að finna fyrir breytingum í brjóstunum. Það má segja að þá sé aðlögun brjóstanna að mjólkurframleiðslunni fullkomnuð og þær finna ekki fyrir neinu. Það er eins og ekkert sé að gerast í brjóstunum og þannig á það að vera.
Til hamingju hvað allt gengur eðlilega hjá þér
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. nóvember 2012.