Þarf að mjólka reglulega með hatti?

05.03.2009

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef!

Nú á ég einn 3ja mánaða strák sem dafnar mjög vel. Hann fæddist 3440 gr. og er nú orðin 7100 gr. og er eingöngu á brjósti. Ég hef notast við mexikanahatt. Svo þegar hann var 7 vikna kom í ljós að hann var með mikið tunguhaft sem var svo klippt. Ég hélt hattinum áfram. Ég hef prófað að taka hattinn af og til en hann verður pirraður og eins og hann nenni ekki að drekka. Ef ég set hattinn aftur á þá er hann ánægður. Getur verið að hann kunni ekki að drekka án hattsins? Með mikilli jákvæðni og þolinmæði hefur brjóstagjöfin gengið frábærlega og nú spyr ég: Þarf ég að mjólka mig reglulega til að halda brjóstagjöfinni áfram því ég notast við hattinn?

Með kveðju. Jóna.


 

Sæl og blessuð Jóna!

Það er gott að brjóstgjöfin hefur gengið svona vel. Það á að vera almenn regla ef hattur er notaður að þvo hann vel með sápuvatni milli gjafa, mjólka reglulega með mjaltavél eða höndum og láta vigta barnið reglulega og oftar en ella.

Já, það er rétt skilið hjá þér að hann kann ekki að drekka án hattsins. Það er þó sennilega of seint að reyna að breyta því en þú gerir þitt besta með þessum ráðum.

Gangi þér sem allra best.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. mars 2009.