Þarf færri ml af brjóstamjólk en þurrmjólk?

26.03.2007

Hæ, hæ og takk fyrir fróðlegan og skemmtilegan vef.

Nú er ég að rembast við að ná upp brjóstagjöf með 3ja vikna dóttur minnar.Einhvers staðar finnst mér ég hafa heyrt að munur á næringu í brjóstamjólk og þurrmjólk sé einhver og börnin þurfi ekki jafn marga millilítra af brjóstamjólk eins og þurrmjólk. Er þetta eitthvað sem þið vitið meira um eða er þetta gróusaga? Mér finnst svo skrítið hvað magn brjóstamjólkur hjá mér er rokkandi  er að vigta fyrir og eftir gjöf og það virðist ekkert vera á vísan að róa hvað kemur úr mér. Kannski 50 ml núna og svo eftir 3 tíma þegar hún vaknar eru bara 20 en svo kannski 3 tímum síðar aftur 50 ml.

Kveðja, Ein áhugasöm.


Sæl og blessuð ein áhugasöm.

Þetta er fín spurning sem fleiri mættu velta fyrir sér. Það er rétt hjá þér að það er mikill munur á brjóstamjólk og þurrmjólk. Bæði er það með tilliti til innihaldsefni sem eru miklu fleiri og betur samsett fyrir barnið en í þurrmjólk. Svo er nýting barnsins á brjóstamjólkinni líka mun betri því hún hæfir meltingarfærum þeirra. Aðallega þess vegna þurfa þau ekki jafn marga millilítra af brjóstamjólk og þurrmjólk. Það er ekkert skrítið hvað mjólkurmagnið er rokkandi hjá þér. Það er þannig hjá öllum konum. Maður fær alltaf mjög villandi upplýsingar ef maður mjólkurvigtar barn (vigtar fyrir og eftir gjöf). Brjóstamjólk er mismunandi að samsetningu eins og ég hef nefnt áður. Hún er breytileg bæði í gjöfinni, milli gjafa, milli dagshluta, daga, mánaða o.s.frv. Þetta er aldrei sami vökvinn. Það er hins vegar hægt að treysta því að hún hæfir alltaf viðkomandi barni á þessum tiltekna tíma. Ég hef líka farið yfir það atriði áður að það má aldrei nota mjólkun með mjaltavél sem mælikvarða á mjólkurframleiðslu. Magnið sem kemur fer eftir ýmsum þáttum t.d. í hvernig skapi maður er, hvaða tími dags er o.fl. Það er t.d. venjulega minna magn seinni part dags en það er mun næringarríkari mjólk en fyrripartinn þannig að barnið þarf ekki eins mikið af henni.
Þannig að þú vinnur bara áfram í því að koma brjóstagjöfinni í lag hjá þér og dóttur þinni. Ef þú þarft að mjólka þig á milli gjafa til að örva þá hugsarðu bara um að ná 10-20 mínútum eftir því hve mikið rennur. Magnið sem kemur skiptir engu máli. Ef magnið skiptir miklu máli af því það er ábót (barnið getur ekki sogið sjálft) þá ferðu bara þeim mun oftar. 

Gangi þér vel.         

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. mars 2007.