Þarf undirbúning fyrir brjóstagjöf?

11.05.2005

Ég er að ganga með mitt þriðja barn. Í fyrri tvö skiptin hefur brjóstagjöfin gengið mjög illa. Börnin fengu ábót strax á spítalanum og voru aldrei eingöngu á brjósti, nema einn og einn sólarhring þar sem ég reyndi að þrjóskast við að gefa bara brjóst. Ég reyndi allt mögulegt en ég bara mjólkaði alltaf alltof lítið. Þess vegna er ég að spá í hvort ég geti einhvern vegin undirbúið brjóstagjöfina þannig að hún gangi betur strax á meðgöngu?

.................................................................

Sæl og blessuð desemberbumba.

Það er ekkert sem þú átt að gera líkamlega en þú þarft að reyna að undirbúa þig andlega. Reyndu að fara yfir hvað fór úrskeiðis í fyrri brjóstagjöfum og læra af mistökunum. Þegar næsta barn fæðist er mikilvægt að þú fáir að leggja það á brjóst við fyrsta tækifæri, helst á fyrsta klukkutímanum. Eftir það þarftu að vera tilbúin að leggja á brjóst alltaf þegar það biður um, daga og nætur. Aldrei hlaupa yfir gjöf, aldrei að gefa ábót, aldrei snuð. Það hefur líka góð áhrif að hafa barnið sem mest upp við þig og í mikilli snertingu við þig. Ef þú ert í vafa hvernig best er að leggja vörtuna upp í barnið eða hvernig best er að styðja við það í gjöfinni skaltu fá hjálp strax frá byrjun. Ef vel gengur fyrstu 2-3 dagana og barnið sýgur mjög oft og lengi þá ertu komin á beinu brautina og yfirleitt er framhaldið auðveldara.                 

Með von um að vel gangi í þetta sinn,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. maí 2005.