Spurt og svarað

26. júní 2007

Þetta brjóst eða hitt?

Sælar og takk fyrir góðan og upplýsandi vef.
 
Þannig er mál með vexti að ég á eina 4ra mánaða og hefur brjóstagjöfin gengið mjög vel. Hún er algjör skrudda og það kemur fyrir að hún drekki mikið einn daginn og svo miklu minna hinn daginn sem veldur svolitlu ójafnvægi á framleiðslunni hjá mér. Þannig að mér finnst stundum vera heilmikið þan í brjóstunum á mér. Hún er að vakna einu sinni til þess að fá sér að drekka á nóttunni og þegar við vöknum á morgnana er ég alveg að springa og þá oft á báðum. Svo fær hún sér sjúss en drekkur ekki eins mikið og mamman hefði viljað. Brjóstið mýkist aðeins en ekki nóg. Svo fer  daman að sofa og þegar hún á að drekka eftir vagninn er mikið í mér og þá virðist oft meira í því brjósti sem hún drakk síðast úr. Og þá freistast ég stundum til að gefa henni það brjóst aftur. Á ég bara að hunsa þessa þantilfinningu í brjóstinu og gefa henni hitt brjóstið í næstu gjöf? Ætti ekki brjóstið að aðlagast? Er að pæla í þessu því að ég vil alls ekki lenda í brjóstaveseni. Hef ekki hugsað mér að hætta brjóstagjöf næstum því strax.

Kær kveðja, Sveitamamma.


Sæl og blessuð sveitamamma.

Það ætti nú að fara að koma að frekari aðlögun. En það er eins og þú segir dálítið erfitt að eiga við þetta ef börn eru mjög óregluleg. Sem þau eru sum, þessar elskur. Ef framleiðslan er passleg yfir allan sólarhringinn þá myndi ég ráðleggja þér að hunsa þantilfinninguna og gefa hitt brjóstið.
Það er hins vegar eitthvað sem hljómar eins og það gæti verið um offramleiðslu að ræða (ekkert víst að svo sé). Þá gæti verið betra fyrir þig að gefa sama brjóstið aftur og svo hitt x 2 í röð. Það er líka partur af stjórnuninni að mjólka ekki brjóstin ef ætlunin er að láta þau aðlagast.

Vona að þú sleppir við öll óþægindi.         

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. júní 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.