Þolir ekki brjóstamjólkina

26.09.2009

Hæhæ!

Ég á 7 vikna gamla stelpu sem hefur frá fæðingu gubbað brjóstamjólkinni í gusum. Ég þurfti snemma að fara að gefa henni þurrmjólk og hún heldur henni niðri að mestu leyti. Málið er að ég er enn að pumpa mig og hef tekið eftir að stelpunni finnst brjóstið miklu betra en pelinn. Þegar ég fór með hana í 6 vikna skoðun sagði ég hjúkkunni frá þessu(engin ljósmóðir í bæjarfélaginu) og hún benti mérá að láta hana hætta alveg á brjósti fyrst hún þoli ekki brjóstamjólkina. Mjólkin vill ekki fara úr mér þó ég pumpi mig bara þegar ég er farin að leka, svona einu sinni á dag. Stelpan er svo dugleg að drekka að mér finnst synd að taka af henni brjóstið og líka þar sem ég er að mjólka. Þannig að mín spurning er sú hvort það sé einhver möguleiki á að byggja upp þol hjá henni eða á ég bara að fá þurrkutöflu hjá lækninum? Ég passaði geðveikt hvað ég var að borða og tók út það sem ég hélt að væri að valda þessu gubbuveseni en ekkert dugði. Ég myndi glöð þiggja ráð hjá ykkur.

Kv.


 

Sæl og blessuð!

Það kemur kannski ekki alveg nógu skýrt fram hvort eða hvenær barnið er að fá brjóst. Því finnst brjóstið betra en pelinn en þú pumpar bara einu sinni á dag. Mér finnst allavega að þú eigir að láta á þetta reyna. Byrjaðu á að gefa barninu brjóst í 5 mínútur tvisvar á dag í nokkra daga. Fjölgaðu svo gjöfunum í 4 í nokkra daga og sjáðu hvað gerist. Út frá þessu geturðu þróað kerfi sem hentar ykkur kannski.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. september 2009.