Spurt og svarað

31. október 2009

Þrálát sveppasýking

Sælar allar og takk fyir góðan vef!

Ég er með 1 árs gamlan dreng sem er enn á brjósti. Núna fær hann að drekka tvisvar til þrisvar sinnum á sólarhring og hefur gengið vel. Fyrir nokkrum vikum þurfti hann að fá sýklalyf í viku vegna sýkingar og fékk í kjölfarið slæma sveppasýkingu í munn og ég á báðar geirvörtur. Við fengum bæði meðferð ég með töflum og hann mixtúru. Ég tók bæði töflurnar og bar á mig mycostatin mixtúruna fyrir og eftir gjafir og penslaði hann í munninn eftir hverja gjöf og hverja máltíð. Við erum enn að nota mixtúrunaen nú hefur þetta blossað upp aftur þrátt fyrir að ég hafi gert allt sem mér var sagt að gera.Ég henti öllum snuðum og sýð öll snuð í 5 mínútur á hverjum degi, ég skipti oft um brjóstahaldara og þvæ og læt lofta um brjóstin. Hann er með margar tennur og hálf bítur mig og ég er  með opin sár eftir hverja gjöf (það er eins og rifa sem alltaf opnast).Nú er svo sárt að gefa að ég er að gefast upp og hálf græt í hverri gjöf. Ég fékk sár í byrjun brjóstagjafar en þetta er mun verra en það.Mig langaði að hafa hann lengur á brjósti en er að gefast upp. Eigið þið einhver ráð handa mér?

Kveðja Sigga.

 


Sæl og blessuð Sigga!

Það er vonandi að þú getir haldið brjóstagjöfinni áfram. Til þess þarf tvennt. Í fyrsta lagi þarf að laga sárið á vörtunni sem er sennilega sýkt og veldur því miklum verkjum. Þú þarf bæði að læra að hreinsa það vel og svo þarftu staðbundin lyf sem verka yfirleitt fljótt. Sveppir eru sennilega ekki að valda vanda núna. Síðan þarftu að kenna barninu að hætta að bíta. Það eru ráðleggingar varðandi það hérna á síðunni. Það er óhæft að vera að þjást svona í gjöfum þótt barnið sé orðið þetta gamalt.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. október 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.