Spurt og svarað

08. apríl 2007

Þrjóskan borgar sig...

Ég eignaðist mitt fyrsta barn fyrir 3 mánuðum síðan. Brjóstagjöfin hefur verið ein stór rússíbanaferð þar sem barnið hefur stundum hætt að þyngjast eða þyngst illa en þó alltaf náð að halda sér rétt undir vaxtakúrvunni. Allan þennan tíma hef ég fengið spurninguna „en mjólkarðu nóg?“ og það frá ólíklegasta fólki. Fjölskyldan heldur því fram að mjólkin í ættinni sé lítil og dugi í mesta lagi í 3 mánuði, eftir það séum við bara uppurnar og barnið svelti nema það fái þurrmjólk.  Þær hafa verið duglegar að segja mér þetta síðan barnið fæddist og enda svo alltaf á því að segja mér að þetta sé ættgengt og ég sé eins og þær. Ég hef ekki viljað samþykkja það svo glatt og hef þrjóskast við í 3 mánuði að afsanna þessa kenningu þeirra. Ég eyddi mörgum notalegum dögum með barnið á brjósti, mjólkaði mig aukalega á næturnar þegar barnið svaf, grét yfir magninu þegar ekki komu nema 20ml og núna loksins eftir 3ja mánaða áhyggjuhlaðið streð get ég virkilega slakað á.  Barnið er að fá nóg. Nú framleiða brjóstin svo mikið og vel að það lekur úr þeim á milli gjafa. Ég virðist bara hafa þurft þennan langa tíma til þess að mjólkurframleiðslan næði sér almennilega á strik og um leið og það gerðist fór ég að slaka og þá fór mjólkin bókstaflega að flæða.

Tilgangurinn með þessari reynslusögu er að þær konur sem eiga svona erfiða „ráðgjafa“ að, lúffi ekki fyrir þeim heldur reyni að njóta tímans með barnið á brjósti. Það er miklu betra að fá aukavigtun en að vera með áhyggjur, því áhyggjurnar minnka jú víst mjólkina.


Sæl og blessuð.

Til hamingju með hversu vel hefur til tekist. Það var gott hjá þér að þrjóskast áfram og þú munt aldrei sjá eftir því. Ég hef áður tjáð mig um þessa sjálfskipuðu „ráðgjafa“ sem virðast vinna kerfisbundið að því að eyðileggja brjóstagjafir annarra. Ég á mjög erfitt með að skilja hver orsökin hjá þeim er og bíð í raun bara eftir að þeim fækki sjálfkrafa með aukinni fræðslu. Það er mjög auðvelt fyrir konur sem hafa verið í svipaðri stöðu og þú að láta undan þrýstingnum og hætta brjóstagjöfinni. En þá situr oftast eftir efinn. Hvað ef ég hefði reynt lengur, betur, reynt eitthvað annað o.s.frv.   Það var gott hjá þér að vekja athygli á þessu vandamáli sérstaklega til að vara nýorðnar mæður við þessum „óráðgjöfum“ sem virðast víða leynast.

Og bara að lokum varðandi aðlögun brjóstanna. Þú veist það sjálfsagt en um 3ja mánaða aldurinn fer aðlögun brjóstanna að brjóstagjöfinni að verða algjör. Þá áttu að hætta að finna fyrir mjólkinni í brjóstunum og þá á líka að hætta að leka. Haltu endilega áfram að njóta brjóstagjafarinnar áhyggjulaus. Ef barnið er frískt og drekkur þá fær það það sem það vill.

Bestu þakkir.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. apríl 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.