Þruska

09.10.2011

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Fór með barnið mitt í 6 vikna skoðun í dag og þá nefndi læknirinn að barnið væri með þrusku í kinnum en ekkert væri gert við því á meðan þetta pirraði ekki barnið. Er það í alvöru þannig? Ég finn ekkert sjálf á geirvörtunum (barnið er á brjósti) en finnst svo skrítið að sveppasýking sé ekki meðhöndluð strax. Hvað á ég að gera? Bíða eftir að við finnum fyrir einhverju?

Kv. áhyggjufull mjólkandi móðir.


 

Sæl og blessuð!

Ég er sammála þér að það er skrýtið að ekkert eigi að gera strax. Þruska er annað orð yfir sveppasýkingu í munni. Eina skýringin er að læknirinn hafi ekki verið viss hvort um sveppasýkingu eða mjólkurskán hafi veri að ræða. Við mjólkurskán er ekkert gert nema sjá til hvort eitthvað gerist. En ef sveppasýking er til staðar er bara tímaspursmál hvenær vörturnar sýkjast ef barnið er á brjósti. Það er yfirleitt gripið strax inn í og gefin væg sveppameðferð til að koma í veg fyrir að ástandið versni.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9 október 2011.