Spurt og svarað

21. september 2004

Þruska á tungu barns sem er á brjósti

Sælar og takk fyrir gagnlegan vef.

Ég á þriggja vikna gamalt barn sem er með vott að þrusku á tungunni, (ekkert innan í kinnum né á vörum). Ljósmóðirin í ungbarnaverndinni sagði að þetta lagaðist líklega af sjálfu sér og gerði lítið úr þessu en nú er ég farin að fá kláða í geirvörturnar og stundum smá sársauka.  Er ekki líklegt að ég sé komin með sveppasýkingu í geirvörturnar? Hvernig á ég að meðhöndla þær og ætti ég ekki að nota sveppalyf á tunguna á barninu?

Kveðja, Anna.

...................................................................


Sæl og blessuð Anna.

Þruska á tungu barns sem eingöngu er á brjósti er oftast merki sveppasýkingar og þarf að meðhöndla strax. Það er þó ekki alltaf auðvelt um greiningu og væntanlega hefur ljósmóðirin sem þú talaðir við verið í vafa og viljað sjá til. Einkenni frá geirvörtum geta verið enn óljósari og erfiðari að greina. Yfirleitt er ekkert að sjá berum augum í byrjun en það getur verið kláði, pirringur og stundum flögnun. Síðar koma óþægindi tengd brjóstagjöfinni og sviði eftir gjafir sem er kannski það einkenni sem skilur sveppasýkingu frá öðrum geirvörtuvandamálum með svipuð einkenni.

Ég get ekki sagt hvort líklegt sé að þú sért komin með sýkingu. Til þess þarf skoðun og betri einkennalýsingu. Þú þarft að fara til brjóstagjafaráðgjafa eða annars fagaðila sem þekkir vel til sveppasýkinga á geirvörtum. Þú skalt ekki bíða með það. Ef um sveppasýkingu er að ræða gerir hún væntanlega lítið annað en versna. Ekki reyna að meðhöndla sveppasýkingu út í loftið. Það getur gert illt verra og dregið þjáningarnar á langinn. Venjuleg fyrsta meðferð við sveppasýkingu er sveppalyf sem borið er á vörturnar og í munn barnsins við hverja gjöf. Einnig þarf að huga mjög að hreinlætismálum þar sem mjög hætt er við endurteknum sýkingum. Þá þarf að reyna að halda eins hreinu og þurru öllu sem snertir vörtur og munn barnsins.

Vonandi færðu sem fyrst lausn við þínum vanda.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. september 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.