Þrútin brjóst - hætti brjóstagjöf fyrir 2 vikum

24.03.2008

Komið þið sælar og takk fyrir góða vef.

Ég er með fyrirspurn varðandi með að hætta með barn á brjóstið. Mitt barn er 13 mánaða og það er um það bil 2 vikur síðan við hættum brjóstagjöf alveg. Eftir það byrjaði ég að finna fyrir óþægilegum verkjum í holhöndum sem leiða út í brjóstin og undir brjóstin, einni finn ég verki niður í handleggina sjálfa en ég finn verki sérstaklega ef ég ligg á maganum eða hliðinni ásamt því að ég finn mikið fyrir því ef ég lyfti höndunum upp í loft. Brjóstin eru aum viðkomu en ég get ekki fundið neinn einn sérstakan auman blett, það er ekki neinn hnúður eða þykkildi í brjóstum, holhöndum eða handleggjum. En brjóstin eru oft frekar þrútin. Einnig hef ég óþægindi á milli brjóstanna. Er þetta eitthvað sem er eðlilegt þegar maður hættir með barn á brjósti?

Með fyrirfram þökk.Sæl og blessuð. 

Það sem þú ert að lýsa minnir helst á þrýsting á taugar. Það er væntanlega frá þessum þrútnu brjóstum. Það gætu verið eftirköst brjóstagjafarinnar og ættu þá að hverfa á næstu 2-3 vikum. Gættu þess að örva brjóstin ekkert. Ef þetta fer ekki að lagast eða ef þér finnst þetta versna ráðlegg ég þér að fara í læknisskoðun.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
24. mars 2008.