Spurt og svarað

30. nóvember 2008

Þrýstingur á þurrmjólkurgjafir

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

 Ég er með fyrirspurn varðandi brjóstagjöf og þurrmjólk. Þannig er mál með vexti að ég á 5 mánaða gamlan strák sem er mikill brjóstastrákur. Hann eeeelskar að vera á brjóstinu og ég elska ekkert minna að hafa hann samanhnipraðan upp í hjá mér. En kærasti minn, mamma mín og tengdamóðir mín eru oft að þrýsta á mig að gefa honum þurrmjólk í pela. Mamma mín segir "Það er ekkert að því að gefa þurrmjólk í nokkrum gjöfum". Kærasti minn segir "Ég fékk oft þurrmjólk og það erekkert að mér" og síðan segir tengdó "Hvað er þetta, gamlar aðferðir eru ekkert verri en nýjar. Í gamladaga var börnum oft gefin peli". Sama reyndar segir hún með að taka parkódín á meðgöngu. Ég veit líka að ömmur stráksins eru bara að segja þetta til að ég sendi hann í pössun til þeirra - sem ég vil heldur ekkert. En semsagt. Mig langar bara EKKERT að gefa barninu mínu þurrmjólk og ég er orðin bullandi reið á þessari pressu. Og ég  vil enn síður senda hann í pössun til þeirra sem eru svo sjálfselskir að halda að þeirra hagur gangi framyfir hans. HVAÐA SVÖR getið þið gefið mér sem ég get notað á þau sem þrýsta á mig önnur en að ég haldi að þetta sé honum fyrir bestu? Þau svör hafa nefnilega ekki hjálpað mér hingað til. Reyndar hef ég líka bent þeim á að í þau skipti sem ég prófaði að gefa honum þurrmjólk þá setti það gjafamynstur mitt út af laginu og hann varð alltaf órólegur í 2-3 daga eftir það. Ég prófaði þetta 4-5 sinnum. Ég kvíði því að þurfa að hætta með litla prinsinn minn á brjósti því ég veit fátt jafn notalegt og þessar "árásir" taka mjög á mig því mér finnst eins og það sé verið að reyna að komast upp á milli mín og prinsins míns. Með kærum þökkum fyrir gott starf á vefnum og von um svörun.

Örvæntingarfull snót.


 

Sæl og blessuð örvæntingarfulla snót!

Ég skil vel að þetta ástand hafi slæm áhrif á þig. Ég verð líka alltaf jafn undrandi á því hvað fólk þarf að skipta sér af brjóstagjöf kvenna. Það er fátt jafn mikið einkamál og brjóstagjöf. Fólk sem ekki getur verið jákvætt og styðjandi  á þessum mikilvæga tíma á helst ekki að segja neitt.

Þau rök sem þú getur notað eru fyrst og fremst varðandi ónæmi en það er mikilvægt að það fái að þróast og þroskast í friði. Það er orðið nokkurn veginn fullþroska um 6 mánaða aldurinn og því er mikilvægt að barnið fái enga aðra fæðu þangað til. Þessi aldur sem miðað er við að börn geti byrjað að fá aðra fæðu er alls ekki valinn út í bláinn. Á bak við þær eru rannsóknir sem ekki voru til þegar ömmurnar voru með börn sín á brjósti.

Svo er það ofnæmi sem hægt er að kveikja með aðeins einum pela. Það er ekki bara mjólk í þurrmjólk heldur ýmis íblöndunarefni sem hægt er að fá ofnæmi fyrir. Og við erum ekki að tala um ofnæmi á næstu vikum eða mánuðum heldur fyrir lífstíð.

Og þegar talað er um að brjóstagjöf minnki líkur á að barn eða móðir fái hina og þessa sjúkdóma þá er yfirleitt alltaf miðað við að barnið hafi verið eingöngu á brjósti.

Það er auðvitað hægt að útskýra þessi atriði nánar en ég læt þetta duga í bili.

Vona að þetta hjálpi þér.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. nóvember 2008

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.