Þrýstingur í brjóstum, var að hætta brjóstagjöf

17.10.2005

Góðan dag!

Nú var ég að hætta með son minn á brjósti fyrir 48 tímum. Hann var á brjósti í nákvæmlega 13 mánuði og gekk framar vonum. Nú er barn númer 2 að fæðast eftir u.þ.b. 6 mánuði svo ég vildi hætta núna. Ég finn aukinn þrýsting í brjóstunum og býst við að það sé eðlilegt. Getur þetta versnað eitthvað? Er eitthvað sérstakt sem ég á að gera? Á ég að „tappa af“ brjóstunum eða hvað?

Með bestu kveðju, Mamma númer 2.

.....................................................................

Sæl og blessuð mamma númer 2!

Þú gleymir algjöru grundvallaratriði í bréfinu þínu. Það sem mestu skiptir þegar barn hættir á brjósti er hversu hratt er hætt. Tíminn hjá þér er ágætur 13 mánuðir. En ef ég veit ekki hvað þú varst í mörgum gjöfum á sólarhring áður en þú hættir þá get ég ekki byrjað að giska á hvað er í gangi. Ef þú hefur farið skynsamlega í þetta (sem mér finnst mjög líklegt) og trappað niður gjafirnar þannig að þú hafir verið í 1 gjöf á sólarhring undir það síðasta eða jafnvel gefið bara annan hvern dag. Þá geturðu verið alveg róleg. Þrýstingurinn hverfur fljótlega og veldur ekki vandræðum og þú átt ekkert að hreyfa við brjóstunum.  Ef eitthvað hefur farið úrskeiðis og þú hefur hætt í mörgum gjöfum er um allt annað mál að ræða og betra að þú fáir aðstoð frá einhverjum aðila sem gott vit hefur á svona málum. Hér á síðunni er brjóstakorn (fróðleikskorn um brjóstagjöf) um Rólega afvenjun sem einnig gæti hjálpað þér. Stundum getur þurft að „tappa af“ brjóstunum en það er alltaf neyðarúrræði því það lengir jú vanlíðanina. Vona að þú hafir verið skynsöm.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. október 2005.