Þunglyndi eftir fæðingu

26.09.2009

Góðan dag!

Ég hef átt við þunglyndi að stríða eftir fæðingu barnsins míns, sem er rúmlega fimm mánaða. Ég ákvað í samráði við heimilislækni að ég fari á lyf og setti hann mig á Cipralex. Mér fannst hann aftur á móti vera ekki alveg með það á hreinu hvort það væri í lagi að taka þetta lyf á meðan á brjóstagjöf stendur og í sérlyfjaskránni er talað um að ræða ávinning af töku lyfsins við lækni. Þannig að núna líður mér ekki vel með að byrja á þessu lyfi og vildi gjarnan vita hvort þið gætuð sagt mér hvort það sé óhætt að taka þetta lyf samhliða brjóstagjöf.

Kveðja Gerður.


 

Sæl og blessuð Gerður!

Þetta er eitt af þessum nýrri tegund þunglyndislyfja sem eru mun betri en þau gömlu. Það er talið í nokkuð góðu lagi að taka þau með brjóstagjöf. Ávinningurinn sem þú nefnir er náttúrlega að það er mikilvægt að hafa mömmu sem líður vel og getur annast barnið sitt. Svo er líka svo miklu betra fyrir barnið að fá brjóstamjólkina með öllum sinum efnum heldur en eitthvað annað.

Gangi þér bara sem allra best.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. september 2009.