Þurftamikill og lengi að drekka

06.10.2010
Sælar og takk fyrir vefinn
Ég er í smá vandræðum. Drengurinn minn er tíu vikna og mjög kröftugur og þurftafrekur. Hann drekkur um 12 sinnum á sólarhring og er frekar lengi að drekka, yfirleitt ca 45 mínútur í senn. Þetta gengur í sjálfu sér allt ágætlega en ég er orðin dálítið þreytt á að hafa hann svona mikið á brjósti. Þetta gera jú ca 9 klukkutíma á sólarhring og bara rúmur klukkutími á milli gjafa yfir daginn. Er eitthvað sem ég get gert til að fá hann til að drekka hraðar? Eða getur verið að mjólkin renni svona hægt eða hún sé ekki nægileg? Í upphafi gjafa er hann allavega stundum í vandræðum þegar mjólkin kemur hratt svo ég hef það frekar á tilfinningunni að hann sé "slow drinker". Ég hef reynt að kreista brjóstið upp í hann en finnst það ekkert flýta fyrir. Í 9 vikna skoðuninni hafði hann þyngst um rúm 2100g frá fæðingu en þó hefur hann hlutfallslega lengst hraðar miðað við vaxtarkúrfur og er frekar grannur og spengilegur, þó alls ekki neitt horaður.
 
Sæl og blessuð!
Það er alltaf svolítið misjafnt hvaða mynstur börnum hentar hverju og einu. Það hefur yfirleitt ekkert með framleiðslugetu að gera eða hraða mjólkurflæðis. Þetta finnst mörgum hafa meira með karakter hvers barns að gera. Þú gætir alveg eins eignast annað barn sem drekkur aldrei lengur en 10 mín. Þetta virðist vera það mynstur sem hentar þessu barni núna. Það getur svo breyst án þess að þú gerir nokkuð. Ef þú vilt reyna að breyta því er ýmislegt sem þú getur prófað. Þér er alveg óhætt að nota þitt eigið ímyndunarafl til þess. Þú gætir prófað að taka hann af eftir 30 mín. og sett hann í sling, þú gætir prófað að bjóða hitt brjóstið eftir 20 mín. eða prófað eitthvað annað. Það er í sjálfu sér ekkert mynstrinu hans en ef þú vilt reyna að breyta því þá er það allt í lagi.
Bestu kveðjur.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. október 2010.