Þurrmjólk - Brjóstamjólk

18.01.2009

Hæ hæ og takk fyrir frábæran vef!

Ég er með einn 7 vikna strák á brjósti sem byrjaði á því fyrir um það bil 10 dögum síðan að vakna oftar á nóttunni (vaknaði 1-2 áður). Fyrir um viku síðan byrjaði hann á því að hreinlega öskra frá klukkan 4 til 7. Hann drakk alltaf hjá mér en þegar ég ákvað að gefa honum ábót (þurrmjólk) þá strax lagaðist hann og sofnaði sæll og glaður. Hann hefur greinilega ekki verið að fá nóg "í hverjum sopa". Mín pæling er sú að mér finnst miklu minni mjólk í brjóstunum frá sirka miðnætti fram undir morgun. Ætti ég ekki að gefa honum eingöngu þurrmjólk fyrir nóttina til að eiga nóg af brjóstamjólk fyrir næturgjöfina? Ég er jafnvel að spá í að gefa honum þurrmjólk líka um kvöldið. Tel að hann sofni miklu betur. Er ég í hættu á að missa mjólkina með þessu. Mig langar að hafa hann sem lengst. Get ég unnið í að auka brjóstamjólkina þannig að kannski með tímanum þyrfti hann ekki þurrmjólk. 


Sæl og blessuð!

Barnið þitt hefur verið að ganga í gegnum svokallaðan vaxtarsprett sem þau gera mjög gjarnan um 6 vikna aldurinn og á 3ja eða 6 vikna fresti eftir það. Þá þurfa þau skyndilega aukagjafir í 2-4 daga til að hvetja brjóstin til frekari framleiðslu. Síðan verður ástandið aftur eins og áður. Þú hefur því miður valið leið sem lætur brjóstin framleiða minna þannig að þú þart að snúa þróuninni við. Sennilega þarftu að gefa aukagjafir og skipta oft um brjóst í gjöfum í nokkra daga um leið og þú sleppir þurrmjólkinni. Það er hætta á ef þú heldur áfram því kerfi sem þú ert að velta fyrir þér að þú eigir ekki aðeins á hættu að missa mjólkina heldur tryggirðu það alveg að þú hættir að mjólka.

Vona innilega að þér takist þetta fljótt.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. janúar 2009.