Þurrmjólk annað slagið

13.04.2009

Sælar!

Strákurinn minn er 3 mánaða og eingöngu á brjósti en mig langar að fara að skreppa út eitt og eitt kvöld. Mér gengur illa að mjólka mig og það kemur lítið í hvert skipti ca. 30 -50 ml. Annars hefur brjóstagjöfin gengið vel og sonur minn þyngist og þroskast vel. Hann var á vökudeild fyrsta sólarhringinn sinn og fékk þurrmjólk bæði þar og á sængurkvennadeildinni. Ég hef lesið í svörum hérna að það sé mikilvægt að börn fái ekkert annað en móðurmjólk fyrstu 6 mánuðina. En hann er nú þegar búinn að fá það. Væri í lagi fyrir strákinn minn að fá þurrmjólk í pela einstöku sinnum?

Takk fyrir góðan vef.

 


Sæl og blessuð!

Ég er nú ekki sammála því að þetta sé eitthvað lítið sem er að koma hjá þér. Ef þú ferð á einum degi  tvisvar einhversstaðar milli gjafa í vél þá ertu með eina góða gjöf. Ef þú ætlar þér að fara svo lengi að það nái yfir 2 gjafir þá endurtekurðu þetta annan dag og átt þá 2 góðar gjafir.

Það að vera búin að láta hann fá þurrmjólk þýðir að getur verið búið að kynna hann fyrir ofnæmisvökum þannig að ef þú ert aðeins að hugsa um ofnæmi þá getur hann fengið þurrmjólk annað slagið. Hins vegar er ónæmiskerfið sem berst gegn sýkingum ekki tilbúið fyrr en um 6 mánaða þannig að ef þú vilt minnka líkur á alvarlegum veikindum þá forðastu þurrmjólk og aðra fæðu eins og þú getur allan tímann.

Vona að þetta skýri málin.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. apríl 2009.