Þurrmjólk og brjóstagjöf

26.04.2004

Mig langar að vita er ekki í lagi að gefa þurrmjólk með brjóstagjöf?  Ég á viku gamlan strák og mér finnst eins og hann sé ekki að fá næga mjólk hjá mér þannig að ég gef honum þurrmjólk með svo ég sé viss um að hann fái næga næringu. Er þetta ekki í lagi?

..................................................................

Sæl og blessuð!

Nei. Það er ekki í lagi. Ef þér finnst mjólkin ekki vera næg þá þarftu kannski hjálp við að laga brjóstagjafamynstrið. Oft er eitthvað í því sem hefur farið úrskeiðis á fyrstu dögunum. Það gæti þurft að breyta einhverju til að tryggja að barnið fái næga brjóstamjólk. Ertu viss um að þú leggir barnið nógu oft á brjóst? Sum börn þurfa oftar en önnur og 8-12 gjafir á sólarhring er bara meðalgjafafjöldi. Ertu að leggja nógu lengi á í hvert sinn?  Barnið þarf að vera 20-30 mínútur og helst lengur. Er barnið að sjúga geirvörtuna á réttan hátt? Þannig gengur því best að ná allri þeirri mjólk sem í boði er.

Þú hefur því miður valið einu leiðina sem getur valdið því að mjólkurframleiðsla minnkar þannig að þú gerir best í því að hætta því strax. Þetta er mjög góð leið til að venja barn á pela en alröng til að hjálpa barni við brjóstagjöf. Þig vantar kannski upp á trúna á hæfileika líkamans til að framleiða mjólk. Þér er alveg óhætt að trúa því að konur hafa mjólkað börnum sínum nægilega gegnum alls kyns hungursneyðir og hörmungar. Reyndu eins og þú getur að efla þína innri sannfærinu og trú um að þú getir þetta með léttum leik. Þú treystir líkama þínum til að næra barnið þitt fullkomlega í þá 9 mánuði sem það var innan í þér. Þér er jafn óhætt að treysta honum til að næra barnið þitt fullkomlega áfram (eins lengi og þér þóknast).

Þú segist gefa þurrmjólk til að vera viss um að strákurinn fái næga næringu. En þú getur þvert á móti verið viss um að hann sé ekki að fá nógu góða næringu að öllu leyti. Það sem þú ert að gefa með þurrmjólk er aðeins staðgengill móðurmjólkur sem gefin er ef móðurmjólk er ekki í boði og er alltaf miklu síðri m.t.t. næringar.

Með baráttukveðjum,                                                                            
Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi - 26. apríl 2004.