Spurt og svarað

23. ágúst 2006

Þurrmjólkur ábót

Ég er með litla skvísu sem er 3 1/2 mánaða. Hún hefur ekki verið að þyngjast nóg og því fær hún ábót (að læknisráði). Hún tók strax við pelanum og þurrmjólkinni og nú finnst mér hún kjósa pelann fram yfir brjóstið. Ég fæ miklar stíflur og þær eru farnar að leggjast á sálina, hvenær kemur næsta stífla og hvar og svo frv.  Stíflurnar geta eyðilagt heilu dagana og finnst mér erfitt að taka barnið upp og gera daglega hluti. Ég er dugleg að nudda og maðurinn minn hjálpar mér en stundum eru þetta erfið svæði t.d. "undir" brjóstunum og á "milli" brjóstanna. Oft langar mig bara að hætta þessu veseni, en að sjálfsögðu veit ég að ég er að taka mikið frá barninu. En ef að hún er ekki að þyngjast nóg er ég þá með mikla næringu að gefa?  Ég er að spá í hvort rennslið sé ekki nógu hratt úr brjóstunum, sérstaklega þegar um stíflu er að ræða og hvað er til ráða?
Annað er að hægðirnar hafa frá upphafi oftast verið grænleitar, ég var að lesa að grænleitar hægðir væru ekki eðlilegar. Er það rétt?

Með þökk um góðan vef
Sæl og blessuð.

Það er stundum þörf á að gefa börnum þurrmjólk í ábót á fyrstu vikunum ef börn þyngjast illa. Stundum er það til frambúðar en oftast bara tímabundið. Það er auðveldara fyrir börn að drekka úr pela sérstaklega ef gatið á túttunni er vítt eða að þau eru mörg. Og börn eru klók. Þau eru fljót að finna hvernig þau geta fengið eitthvað á fljótan og auðveldan hátt og taka það framyfir það sem þarf flóknari tækni við.
Það að þú skulir fá miklar stíflur bendir eindregið til að þú hafir meiri mjólk í brjóstunum en þú heldur. Stíflur eru venjulega afleiðing þess að brjóstin eru ekki nægilega vel sogin. Þannig að kannski hefur mjólkurframleiðslan þín jafnað sig aftur. Ég myndi raðleggja þér að láta á það reyna.
Svörn við spurningunum eru því: Já, þú hefur mikla næringu að gefa og það er engin sambærileg til í öllum heiminum.  Það getur verið að vanti upp á flæði hjá þér ef mikið stress og spenna er í gangi hjá þér. Það getur hjálpað að skapa rólegar, þægilegar aðstæður við brjóstagjöfina og nota slökun. Það eru líka til lyf sem hjálpa til við flæði.
Grænleitar hægðir eru alveg eðlilegar. Þær geta hins vegar bent til að um of hátt hlutfall formjólkur sé að ræða í fæði barnsins . Það er hægt að laga með breyttu gjafamynstri. Nú veit ég ekki hvert gjafamynstrið hjá þér hefur verið en algengustu ráð við of mikilli formjólk eru t.d. lengri gjafir af fyrra brjósti. Fleiri gafir af einu brjósti í gjöf og engin auka mjólkun (leki líka stoppaður).
Ég vona að þetta hjálpi eitthvað.                     
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
23.08.2006.
 
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.