Þykkur mjólkurkirtlavefur í ættinni

14.12.2005

Hér kemur smá innlegg í umræður um stálma hér á vefnum. Það er ekki alveg rétt hjá ljósmóðurinni að það fari eftir barninu hvort móðirin fái mikinn stálma. Ég veit það af eigin reynslu með tvö brjóstabörn þar sem brjóstagjöf hefur gengið mjög vel og þau einungis nærst á brjóstamjólk í 9 mánuði og verið feit og pattaraleg. Við 9 mánaða aldur byrjuðu þau að fá mat með brjóstamjókinni. Þau höfðu bæði mjög mikla sogþörf eftir fæðingu og voru dugleg á brjóstinu. Í fyrra skiptið þá virtust brjóstin á mér ætla hreinlega að rifna af stálma. Voru heit og rauð og mjög hörð og þvílíkur sársauki, erfitt að ná geirvörtunni en tókst samt vegna dugnaðar barnsins. Tek það fram að ég lá á Landspítalanum og naut virkilega góðrar þjónustu með þetta allt. Í annað skiptið ætlaði ég nú sannarlega að losna við þetta en viti menn það varð jafn slæmt. Þegar ég fór svo í krabbameins myndatöku seinna sagði læknirinn mér að ástæðan fyrir því að ég hefði fengið svona mikinn stálma væri að ég væri með sérstaklega þykkan mjólkurkirtlavef sem svo gerði það svo að verkum að ég mjólkaði svona vel. Það hefur svo komið í ljós að þetta er í ættinni föðursystur mínar báðar fengu svona hrikalega stálma og áttu þó báðar mörg börn, sem áttu það ekki öll sameiginlegt að vera ekki nógu dugleg að sjúga. ;-))

.................................................................................

Sæl og blessuð.

Já, eins og við vitum eru til undantekningar á öllum reglum. Þær eru hins vegar svo sjaldgæfar að það er betra að vera ekki að rugla fólk með þeim. Þetta er sjálfsagt allt satt og rétt hjá þér,  en það væri hjálplegt ef konur skildu að slíkar undantekningar eru afar sjaldgæfar.

Bestu kveðjur.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. desember 2005.