Þyngdaraukning brjóstabarns

27.03.2006

Sælar kæru ljósmæður.

Vantar smá hjálp.  Ég bý í Hollandi með 14 vikna dóttur mína og fer hér í ungbarnaeftirlit með hana.  Nú hefur hún ekki verið að þyngjast nóg og hefur verið undir sinni kúrfu í s.l. tveimur skoðunum.  Núna síðast var hún einungis búin að þyngjast um 100 gr á 3 vikum. Hún fæddist 3700 gr en er 5400 núna. Læknirinn vildi ekki meina að það væri neitt alvarlegt að, sagði mér bara að reyna að hafa hana lengur á brjóstinu. Ég er nú samt með pínu áhyggjur af þessu. Mér finnst hún svo lítil eitthvað. Hún drekkur á þriggja tíma fresti á daginn, oftast í 10 til 15 mínútur í hvert skipti.  En hún drekkur bara einu sinni á nóttunni.  Hún sofnar kl. 19.30 og vaknar ekki fyrr en um kl 3.00 til að fá sopann sinn og sofnar svo strax aftur. Getur verið að ég þurfi að vekja hana, kannski áður en ég fer sjálf að sofa til að drekka? Gæti þetta verið vandamálið, þ.e. að hún fái ekkert í of langan tíma þarna á nóttunni? Annað: hún hefur hægðir oftast tvisvar á dag og þær eru mjög fljótandi, nánast vatnskenndar. Er það eðlilegt? Hefur verið svona frá byrjun.

Eða er ég móðursýkin uppmáluð og gæti þetta verið fullkomlega eðlileg þyngdaraukning á barninu?

Takk fyrir frábæran vef!!


Sæl og blessuð.

Nei, þú ert alls ekki móðursýkin uppmáluð. Ég er mjög ánægð með konur sem þora að spyrja að því sem þær vantar að vita. Hversu asnalega sem það getur hljómað í þeirra eyrum, þá er þetta oft spurningar um atriði sem er ekki á allra færi að vita.
100 gr. þyngdaraukning á 3 vikum er ansi lítið en samt er maður alltaf tilbúinn að gefa brjóstabarninu séns á 1 dýfu í þyngd. Yfirleitt jafna þau sig aftur. Þín dóttir er náttúrlega líka á þeim aldrinum sem meirihluti brjóstabarna fer út af kúrfunni en hún er búin til af börnum á blandaðri næringu. Þannig að ég myndi vera róleg í bili í þínum sporum. Þú lest líka heilmikið út úr líðan barnsins og þroskamörkum sem þau eiga að ná á ákveðnum aldursstigum.

En ef ég fer að spá í gjafirnar hjá þér eins og þú lýsir þeim þá ertu annað hvort að gefa of fáar gjafir eða ég er að misskilja eitthvað. Samkvæmt talningu ertu að gefa 6 gjafir á sólarhring. Þú þarft að bæta 2 gjöfum við á sólarhring og það er gott ef önnur þeirra lendir á nóttunni þar sem þær gjafir gefa börnum mest. Hægðirnar hljóma alveg eðlilegar.

Vona að þetta hjálpi eitthvað.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. mars 2006.