Spurt og svarað

10. mars 2009

Þyngdaraukning ungabarna

Sælar ljósmæður!

Ég á rúmlega 4 vikna son (fyrsta barn) sem var 3600 gr. við fæðingu. Í 4 vikna læknisskoðun hafði hann þyngst um tæp 2 kg. og vegur nú um 5500 gr. Hann drekkur augljóslega vel og fær einungis brjóstamjólk um 7 gjafir á sólarhring. Læknirinn vildi meina að þetta væri mikil þyngdaraukning en væri í lagi þar sem hann er brjóstabarn. Hins vegar er ég óróleg vegna þessa. Ekki mun drengurinn halda áfram að þyngjast svona mánaðarlega og vera orðinn 10 kg. þá þriggja mánaða! Ég er í kjörþyngd og faðirinn líka og við borðum næringarríkan og hollan mat á heimilinu. Á ég að breyta mínu matarræði eitthvað eða fækka gjöfum eða er þetta bara algerlega eðlilegt?

Takk fyrir frábæran vef. Rjómavélin.


 

Sæl og blessuð Rjómavél!

Það er talið eðlilegt þegar brjóstbörn þyngjast mikið ef brjóstagjöfin er eðlileg. Þá er átt við að ekki sé stöðugt verið að þvinga barnið til að drekka meira en það hefur lyst á. Líka þarf stundum að passa að mjólkin sé ekki of þunn. Því fylgir mikill mjólkurleki sem þú ættir að verða vör við. Ef þessi atriði eru ekki fyrir hendi er þetta alveg rétt hjá lækninum að þyngdaraukningin er í lagi. Oftast hægir svo á þessu en ekki alltaf. Ef mikil fita safnast utan á barnið er líklegt að hún renni af því þegar það fer að hreyfa sig meira t.d. ganga og hlaupa. Það er því engin ástæða til að hafa neinar áhyggjur.

Bestu óskir.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. mars 2009.

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.