Þyngdartap 10-15%

01.02.2009

Sælar!

Af hverju mega nýfædd börn ekki léttast um meira en 10-15% af heildarþyngd sinni eftir fæðingu ef þau eru róleg og ekki með gulu? Hjá mæðrum er mjólkin stundum lengi að koma af stað. Ef þau eru dugleg að hanga á af hverju skiptir þetta þá svona miklu máli? Svo er farið að gefa staup/pela og fresta mjólkurframleiðslunni enn meira.


 

Sæl og blessuð.

Það er litið svo á að það þurfi að grípa í taumana ef barn léttist svona mikið. Að baki því liggja ákveðin rök. Þetta eru litlir kroppar og mikið þyngdartap getur boðið heim hættu  fyrir ýms líffæri. Það á hins vegar ekki að grípa inn í með staupi eða pela heldur á að grípa inn í með því að laga brjóstagjöfina. Það er hins vegar ekki alltaf gert því miður og þar má kannski helst um kenna vanþekkingu á brjóstagjöf. Það er oftast lítið mál að laga brjóstagjöf snemma en ef það dregst getur það orðið býsna snúið. Í sjaldgæfum tilfellum er auðvitað ástandið svo alvarlegt að grípa verður til þurrmjólkur.

Vona að þetta svari þínum spurningum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. febrúar 2009