Þyngdartap með brjóstagjöf

22.08.2005
Gott kvöld, ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvernig sé best að ná af mér aukakílóunum þegar ég er búin að eiga og er búin að heyra að hjá sumum gengur mjög vel að brenna umframviktinni með brjóstagjöf, en að það sé jafnfram mjög mismunandi á milli kvenna. Það sem mig langar að spyrja að er hvort að það er í lagi að drekka prótín hristing á meðan maður er með barnið á brjósti. Þ.e. þessa drykki sem koma í stað fyrir máltíð og duftnu er blandað út í mjólk í eins konar hristing.
 
........................................................
 
Komdu sæl.
 
Ég myndi ekki mæla með átaki í megrun á meðan þú ert með barnið á brjósti, það er nógur tími seinna að gera eitthvað í málinu.  Sumar konur finna mjög fyrir því að mjólkin minnki ef þær halda í við sig meðan á brjóstagjöf stendur.  Hinsvegar getur þú hreyft þig, byrjað á gönguferðum og prófað þig þannig áfram og borðað hollan og góðan mat og hver veit nema einhver kíló fari bara með því.  Mundu líka að drekka nóg.
Hvað varðar próteinhristinga þá verð ég að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér það sérstaklega en mér skilst að þeir innihaldi flest þau næringarefni sem líkaminn þarfnast.  Þú skalt lesa vel innihaldslýsinguna á þeim drykk sem þú hefur hugsað þér að nota og sennilega stendur líka á þeim ef ekki er mælt með þeim fyrir konur með börn á brjósti.
 
Gangi þér vel.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
22.08.2005.