Spurt og svarað

10. maí 2005

Þyngdartap við brjóstagjöf

Ég á eina 3 mánaða stelpu sem er á brjósti. Ég hef verið að léttast og léttast síðan ég átti, og má engan veginn við því. Ég er 171 á hæð og ég vigtaði mig í gær og er orðin 56 kg. Rassinn á mér er nánast horfinn og ég lít út eins og anorexíu sjúklingur. Stelpan hefur verið með magakrampa, sem ég held að séu yfirstaðnir, allavega er svolítið síðan hún fékk seinast krampa og þetta á víst að ganga yfir á fyrstu 3 mánuðunum. Ég hef tekið margt út úr fæðunni hjá mér, sem mér er sagt hafi áhrif á hana s.s. mjólkurvörur, ost, súkkulaði og ýmislegt annað. Hvernig get ég náð að fitna aftur? Ég hef alltaf verið frekar grönn en ekki svona grönn. Þetta er of mikið fyrir minn smekk. Er mér óhætt að byrja aftur á mjólkurvörunum og öllu hinu sem ég hef hætt að borða og drekka? Ég hef reyndar fengið mér jógúrt á morgnanna en það er það eina. Hvað með þessa drykki sem eiga að fita fólk? Ég man ekki hvað þeir heita, en það var einu sinni hægt að kaupa shake held ég. Ég hef ekki farið í sund eða neina líkamsrækt síðan áður en ég varð ólétt, þannig að ég er ekki að hreyfa mig mikið, fyrir utan það að sinna barninu. Ég verð örugglega ekki vinsæl þegar konur lesa þetta, þar sem konur eru yfirleitt að berjast við að ná kílóunum af sér eftir fæðingu.

..........................................................................

Sæl og blessuð mjóna.

Þú þarft nú ekki að hafa áhyggjur af að missa vinsældir á þessu. Flestum konum sem hafa börn sín á brjósti gengur ágætlega að losna við aukakílóin. Þær þurfa ekki einu sinni að hugsa um það því það gerist af sjálfu sér. En hjá sumum verður þyngdartapið heldur of mikið. Þá er stundum sagt að börnin „éti mæður sínar upp“. Þetta er að sjálfsögðu fyrst og fremst spurning um að borða nógu margar kaloríur til að viðhalda líkamsstarfseminni og framleiða mjólkina sem fer jú beint út úr líkamanum. Það þarf fleiri kaloríur í það en að ganga með barn ef þér finnst betra að miða við það hvernig fæði þitt var á meðgöngutímanum. Þér er alveg óhætt að borða allt sem þú vilt og kannski er breytingin sem þú hefur gert á fæðinu ástæðan fyrir þessum vandræðum. Drykkurinn sem þú ert að tala um er líklega „Build up“. Fæst í matvöruverslunum ásamt fleiri vörum í svipuðum dúr. Þú getur líka spurst fyrir í apótekum. Annars skaltu láta hugann reika og vita hvort þér dettur ekki eitthvað hitaeiningaríkt í hug sem þig langar að borða. Yfirleitt er rjómaís vinsæll. Það er engin ástæða fyrir þig að sleppa hreyfingu eða líkamsrækt. Það er yfirleitt af hinu góða og eykur heilbrigða matarlyst. 

Með bestu óskum um að vel gangi í smá fitun,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. maí 2005.

                                            

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.