Spurt og svarað

28. mars 2006

28 vikur

Mig langar að vita hverjar lífslíkur eru hjá barni fæddu á 28 viku og
vegur um 700 gr.
Geta svona lítil börn sloppið við að fara í öndunarvél ,hvað þurfa börn að vera orðin þung til að geta farið heim?  Er ekki hætta á einhverjum lungasjúkdómum
?

______________________________________________________________________

Sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina. 
Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör.
Það er erfitt að gefa þér einhverja prósentutölu varðandi lífslíkur barnsins.  Það er svo margt sem spilar inn í og hefur áhrif á hvort barnið lifir af eða ekki.  Má þar nefna af hverju barnið fæddist fyrir tímann, var það vegna þess að fæðingin fór af stað? Fór fæðingin af stað vegna sýkingar, fékk móðirin sýklalyf í fæðingunni, náðist að gefa stera til að flýta lungnaþroska, var barnið tekið fyrir tímann vegna veikinda móðurinnar? 
Allt hefur þetta áhrif á hvernig barninu reiðir af.
Á Íslandi hefur verið gerð rannsókn á lífslíkum lítilla fyrirbura og fötlun þeirra og borið saman tímabilið 1982-1990 og 1991-1995.  Í þeirri rannsókn kom fram að á árunum 1982-1990 lifðu 22% af lifandi fæddum fyrirburum ennþá við 5 ára aldur en á seinna tímabilinu voru það um 52%.  Það er svipað og gerist annars staðar í heiminum og talið er að þennan mun megi rekja til nýrra lyfja og meðferðar.  Af þessum hópi eiga svo um 17% við einhverja fötlun að stríða.  Þessi prósentutala virtist ekki breytast milli ára.  
Börn sem fæðast svona fyrir tímann geta sloppið við að fara í öndunarvél en þurfa flest einhverja öndunaraðstoð, t.d. súrefni, stuðningsvél eða eitthvað þess háttar.
Ég held að börnin þurfi allavega að vera orðin 2500gr áður en þau fara heim en það skiptir miklu máli hvernig þessi börn pluma sig og ég held að ákvörðun um heimferð ráðist meira af því heldur en þyngd þeirra.  Oft er talað um á vökudeildinni að foreldrar eigi að miða við að börnin komi heim í kringum áætlaðan fæðingardag og ef þau fá að fara fyrr heim er það bara bónus.
Þessi börn geta verið veikari fyrir lungnasjúkdómum en önnur börn en fer allt eftir aðstæðum, aldri barnsins við fæðingu og svo framvegis.

Ég vona að þetta hafi svarað spurningu þinni. 

Kær kveðja
Guðrún Sigríður Ólafsdóttir 
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
28.03.2006

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.