Spurt og svarað

02. maí 2013

6 mánaða í helgarpössun

Góðan dag og takk kærlega fyrir frábæra síðu!
Okkur skötuhjúunum býðst að fara í skemmtilega helgarferð út á land eftir mánuð, þegar stelpan okkar verður sex mánaða. Við erum búin að vita af þessari ferð lengi og hlakka mikið til, en núna þegar nær dregur er ég ekki viss um að ég geti sett dóttur okkar í pössun yfir heila helgi. Ég er ein með hana á daginn og við erum orðnar svolítið háðar hvorri annarri, mér finnst t.d. mun erfiðara að setja hana í nokkurra klukkutíma pössun núna en þegar hún var nokkurra vikna. Hún er líka að byrja á því að verða hrædd hjá öðrum en foreldrunum, t.d. ef við komum á nýjan stað og réttum hana einhverjum á meðan við sækjum dót eða tökum af okkur, þá verður hún svolítið skelkuð og fer að gráta. En allt í lagi að vera í fanginu á öðrum ef hún kannast við sig eða sér okkur. Hún er enn eingöngu á brjósti en hefur fengið að smakka aðeins ávexti og ég reikna með að það fari að aukast núna. Amma hennar er sú eina sem hefur verið að passa hana við og við ef við skreppum eitthvað og er mjög mikið í kringum hana - hún tók svo reyndar tímabil um daginn þar sem hún fór alltaf að hágráta þegar hún sá téða ömmu en það leið fljótt hjá og nú hlær hún mikið þegar hún sér hana. Amman er meira en til í passa hana yfir helgi og myndi þá gista heima hjá okkur á meðan. En ég er samt eitthvað óróleg yfir þessu og hef helst áhyggjur af þessum hlutum: - að hún muni gleyma mér - að hún muni gráta og kalla eftir mér en ég verð ekki til staðar fyrir hana og muni með því bregðast trausti hennar - að þetta muni setja skarð í getu hennar til að treysta fólki í framtíðinni og mér aftur - að hún vilji ekki brjóstið aftur - að samband okkar skaðist og við verðum ekki jafn nánar eftir þetta Eru þetta raunveruleg áhyggjuefni eða er ég bara í fimmta gír móðursýkinnar? Ég verð að viðurkenna að ef ég hefði lesið svona fyrirspurn áður en ég varð móðir hefði ég örugglega farið að hlæja, en núna er ég bara með nettan kvíðasting yfir þessu!! Því miður er ekki í boði að fara bara annan daginn þar sem þetta er langt úti á landi og það tekur því ekki. Getur sex mánaða barn skaðast af því að vera frá foreldrunum yfir heila helgi? Eru miklar líkur á því að hún vilji ekki brjóstið aftur (hún er vön að drekka brjóstamjólk úr pela sem á að líkja eftir brjósti, þ.e. erfitt að sjúga úr þegar ég er ekki á staðnum)? Eigum við að skella okkur eða er þetta afleit hugmynd og ég ætti bara að senda manninn minn einan? Afsakið langt bréf, vonandi eigið þið svar handa mér! Kveðja, ein ringluð.
Sæl
Takk fyrir að leita til okkar, vonandi kemur svarið að notum þó að seint sé.
Flest börn þola vel að fara í helgarpössun, þau eru öll misjöfn og misjöfnu vön. Það verður kannski erfiðara fyrir þig þar sem þú átt nú þegar erfitt með að láta hana í nokkrar klukkustundir í pðssun. Þú ættir ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að hún né samband ykkar skaðist af því að hún fari í pössun, hún þarf líka að læra að treysta öðrum en ykkur foreldrunum. Hún gleymir ykkur ekki og hún mun líklega gráta þegar þið kveðjið hana. Það er mikilvægt að þið kveðjið hana því þá veit hún hvenær þið farið og veit að þið kveðjið áður en þið farið en hverfið ekki allt í einu.
Með brjóstagjöfina er erfiðara að segja, hún gæti tekið við því eins og ekkert hafi í skorist en gæti líka neitað því. Þar sem hún er nú þegar vön því að fá pela tel ég minni líkur á að hún neiti brjóstinu. Það er mikilvægt fyrir þig að mjólka þig reglulega á meðan þið eruð í burtu ef þú vilt halda framleiðslu uppi.
Ég segi að þið ættuð að skella ykkur, líklega hafið þið bara gott af því.
Gangi ykkur vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. maí 2013
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.