Spurt og svarað

08. júní 2004

Ábótagjöf á Sængurkvennadeild

Mig langar til að vita hvers vegna er verið að bæta á barn þurrmjólk ef allt er í lagi með brjóstagjöf þó að sé bara annar dagur og allt gengur vel? Maður er ekki spurður hvort maður vilji láta gefa barni - ljósmæðurnar
gefa bara ábót og síðan ælir barnið því. Hvað á að gera til að ekki sé gefin þurrmjólk? Ég er búin að lesa að það þurfi ekki að gefa þurrmjólk á fyrstu dögum.  Ég verð að segja að ég var fyrir vonbrigðum með ljósmæðurnar.

....................................................................

Kæra móðir!

Já, það eru fleiri en þú sem vilja vita af hverju er bætt þurrmjólk á börn þegar brjóstagjöf gengur eðlilega fyrir sig. Þetta er ekki bara vandamál hér heldur í mörgum löndum. Almenna reglan er þó sú að það sé ekki gert og meirihluti starfsfólks sængurkvennadeildar hér er sér meðvitaður um að heilbrigð börn þurfa ekki ábót fyrstu 2 sólarhringana og aldrei ef þau taka brjóstið vel. Það veit að ábót getur truflað eðlilega byrjun brjóstagjafar og kallað á vandamál. Ástæðuna fyrir því að sumir bæta samt á börn veit ég ekki en er hugsanlega miskilin góðvild. Sumir trúa í hjarta sér ekki að broddur nægi börnum sem næring og halda að það geri þeim verulega til góða með því að gefa þeim þurrmjólk sem "betri næringu". Og sumir trúa því ekki í hjarta sínu að kona geti framleitt næga mjólk fyrir 2 heilbrigð börn þannig að þá sé sjálfsagt að gefa öðru barninu.
Varðandi það að biðja um leyfi til að gefa ábót þá er það ein af vinnureglum sængurkvennadeildar að það beri að biðja móður leyfis fyrir ábótargjöf. Þannig að ef það fer úrskeiðis þarf að athuga af hverju það gerðist og láta deildarstjóra vita ef þörf þykir.
Spurningin um hvað eigi að gera til að barni sé ekki gefin ábót má svara á nokkra vegu. 1) Hafa skýr fyrimæli á mæðraskrá um að móðir óski eftir því að barni verði ekki gefin ábót. 2) Segja öllum sem hafa með barnið að gera frá því að ekki sé óskað efir að það fái ábót. 3) Hafa skráð á vöggu barnsins að óskað sé eftir að barn fái ekki ábót. 4) Hafa barnið alltaf hjá sér ( líka mjög gott fyrir brjóstagjöfina ).4) Fara svo snemma heim af sjúkrahúsinu að ekki gefist tækifæri til að gefa barninu þurrmjólk (líka gott fyrir tengsl móður og barns).

Með von um að betur takist til næst.

Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi - 7. júní 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.