E-vítamín

09.03.2009

Hæ og takk fyrir frábæra síðu!

Mig langaði bara að spyrja ykkur hvort mér sé óhætt að bera á mig E-vítamínolíu úr hylkjum á meðgöngu? Frásogar húðin þetta það vel að ég eigi á hættu að fara yfir áætlaðan dagsskammt af E-vítamíni ef ég nota nokkur hylki á dag til að bera á mig?

Bestu kveðjur, Sigrún.

 


 

E-vítamín  (tókóferól) er eitt af oxavörum líkamans, viðheldur blóðmyndun og verndar frumuhimnur.  Þörfin eykst aðeins á meðgöngu en skortur er mjög sjaldgæfur og því ætti alls ekki að vera þörf á því að taka inn E-vítamín á meðgöngu.  Til gamans má geta þess að orðið tókóferól er samsett úr grísku orðunum tocos sem þýðir barnsfæðing og pheros sem þýðir að fæða og tengist fósturlátum dýra vegna skorts á efninu. Í dýrum er skortur á E-vítamíni nefnilega tengdur við fósturlát og þess vegna voru uppi hugmyndir um að inntaka E-vítamíns gæti verið gagnleg til að fyrirbyggja fósturlát.  Einnig var talið að inntaka E-vítamíns gæti minnkað líkur á meðgöngueitrun og lágri fæðingarþyngd. Rannsóknir hafa hins vegar ekki sýnt fram á gagnsemi E-vítamíns í þessu tilliti en hins vegar hefur komið í ljós að mögulega getur of mikil inntaka E-vítamíns aukið líkur á dauða barns í móðurkviði. Það er því alls ekki mælt með inntöku E-vítamíns á meðgöngu því nægjanlegt magn fæst úr daglegri fæðu.

E-vítamín er aðallega að finna í heilu korni, eggjum, grænu blaðgrænmeti, lárperum, spergilkáli, hvítkáli, hnetum, lifur, nýrum og kaldpressuðum matarolíum.

Það er alveg ljóst að E-vítamín er tekið upp að einhverju leyti í gegn um húðina, þannig að ef það er borið á líkamann, þá fer hluti þess inn í líkamann. E-vítamín olíur hafa verið markaðssettar sem vara til að fyrirbyggja slit á meðgöngu (ekki sannað að virki) og því er ljóst að margar konur hafa borið á sig slíka olíu í gegn um tíðina. Það ætti að standa á þessum hylkjum sem þú nefnir hversu mikið E-vítamín innihaldið er. Mér finnst erfitt að svara því hvort þetta sé óhætt eða ekki en sennilega er í lagi að bera slíka olíu á sig annars lagið.

Mér finnst alltaf vera að koma betur og betur í ljós að allt er gott í hófi og sennilega gildir það líka hér.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. mars 2009.

Heimildir:

Mail Online (2006).  Vitamin E linked to stillbirths. http://www.dailymail.co.uk/health/article-390202/Vitamin-E-linked-stillbirths.html

Oohoi (2005). The Benefits of Vitamin E oil. http://www.oohoi.com/healthy_living/vitamin-info/vitamin-e-oil.htm

Tiran , D.  (1997).  Maternal Nutrition.  Í B.R.Sweet (Ritstj.), Mayes’ Midwifery (12. útg) (bls. 185 – 195).  Edinburgh: Hacourt Publishers Limited.

Worthington-Roberts, B.S.  (1997).  Energy and Vitamin Needs During Pregnancy.  Í B.S. Worthington-Roberts og S.R. Williams (Ritstj.), Nutrition in Pregnancy and Lactation (6. útg.) (bls. 128-166).  Iowa: Brown & Benchmark Publishers.