Spurt og svarað

09. mars 2009

E-vítamín

Hæ og takk fyrir frábæra síðu!

Mig langaði bara að spyrja ykkur hvort mér sé óhætt að bera á mig E-vítamínolíu úr hylkjum á meðgöngu? Frásogar húðin þetta það vel að ég eigi á hættu að fara yfir áætlaðan dagsskammt af E-vítamíni ef ég nota nokkur hylki á dag til að bera á mig?

Bestu kveðjur, Sigrún.

 


 

E-vítamín  (tókóferól) er eitt af oxavörum líkamans, viðheldur blóðmyndun og verndar frumuhimnur.  Þörfin eykst aðeins á meðgöngu en skortur er mjög sjaldgæfur og því ætti alls ekki að vera þörf á því að taka inn E-vítamín á meðgöngu.  Til gamans má geta þess að orðið tókóferól er samsett úr grísku orðunum tocos sem þýðir barnsfæðing og pheros sem þýðir að fæða og tengist fósturlátum dýra vegna skorts á efninu. Í dýrum er skortur á E-vítamíni nefnilega tengdur við fósturlát og þess vegna voru uppi hugmyndir um að inntaka E-vítamíns gæti verið gagnleg til að fyrirbyggja fósturlát.  Einnig var talið að inntaka E-vítamíns gæti minnkað líkur á meðgöngueitrun og lágri fæðingarþyngd. Rannsóknir hafa hins vegar ekki sýnt fram á gagnsemi E-vítamíns í þessu tilliti en hins vegar hefur komið í ljós að mögulega getur of mikil inntaka E-vítamíns aukið líkur á dauða barns í móðurkviði. Það er því alls ekki mælt með inntöku E-vítamíns á meðgöngu því nægjanlegt magn fæst úr daglegri fæðu.

E-vítamín er aðallega að finna í heilu korni, eggjum, grænu blaðgrænmeti, lárperum, spergilkáli, hvítkáli, hnetum, lifur, nýrum og kaldpressuðum matarolíum.

Það er alveg ljóst að E-vítamín er tekið upp að einhverju leyti í gegn um húðina, þannig að ef það er borið á líkamann, þá fer hluti þess inn í líkamann. E-vítamín olíur hafa verið markaðssettar sem vara til að fyrirbyggja slit á meðgöngu (ekki sannað að virki) og því er ljóst að margar konur hafa borið á sig slíka olíu í gegn um tíðina. Það ætti að standa á þessum hylkjum sem þú nefnir hversu mikið E-vítamín innihaldið er. Mér finnst erfitt að svara því hvort þetta sé óhætt eða ekki en sennilega er í lagi að bera slíka olíu á sig annars lagið.

Mér finnst alltaf vera að koma betur og betur í ljós að allt er gott í hófi og sennilega gildir það líka hér.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. mars 2009.

Heimildir:

Mail Online (2006).  Vitamin E linked to stillbirths. http://www.dailymail.co.uk/health/article-390202/Vitamin-E-linked-stillbirths.html

Oohoi (2005). The Benefits of Vitamin E oil. http://www.oohoi.com/healthy_living/vitamin-info/vitamin-e-oil.htm

Tiran , D.  (1997).  Maternal Nutrition.  Í B.R.Sweet (Ritstj.), Mayes’ Midwifery (12. útg) (bls. 185 – 195).  Edinburgh: Hacourt Publishers Limited.

Worthington-Roberts, B.S.  (1997).  Energy and Vitamin Needs During Pregnancy.  Í B.S. Worthington-Roberts og S.R. Williams (Ritstj.), Nutrition in Pregnancy and Lactation (6. útg.) (bls. 128-166).  Iowa: Brown & Benchmark Publishers.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.