Spurt og svarað

23. júlí 2006

Af hverju að gefa börnum snuð?

Nú spyr ég eins og bjáni, enda með fyrsta barn á leið í heiminn!

Af hverju að gefa börnum snuð? Ef að þau eru að taka brjóstið vel og slíkt eru þau þá ekki að fá sogþörf sinni uppfyllt? Finnst þetta eitthvað svo undarlegt að við séum að troða einhverri gervi gúmmítúttu upp í börnin okkar og segjum að það sé að uppfylla einhverja náttúrulega þörf. Er ekki brjóstagjöfin hin náttúrulega lausn á þörfinni!? Vona að þú getir útskýrt þetta fyrir mér. Ætla ekki að venja barnið mitt á snuð nema þá að hafa einhverja haldbæra ástæðu til að gera það:)

Takk, takk.

 


 

Sæl og blessuð!

Það er alveg yndislegt að heyra svona náttúruleg sjónarmið. Þetta er alveg hárrétt hugsað hjá þér. Að sjálfsögðu er börnum ekki ætlað að fá neitt annað í munninn en það sem náttúran ætlaði þeim. Og það er að sjálfsögðu brjóstið. Það er í raun miklu meira athugavert hvernig nokkrum manni gat dottið í hug að reyna að finna upp eitthvað annað til að setja í munn barna. Hvað varð um geirvörtuna? Hvarf hún, datt hún af, hætti mamman við að ætla að næra barnið sitt. Sogþörf barna er að sjálfsögðu þörf fyrir næringu. Börn sjúga ekki að gamni sínu. Ef þau sjúga mikið og lengi þá er það vegna þess að þau þurfa að sjúga mikið og lengi til að fullnægja næringarþörf sinni en ekki vegna þess að þau séu að leika sér. Ég get ekki gefið þér neina haldbæra ástæðu til að venja barnið þitt á snuð.

Gangi þér vel,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
23. júlí 2006.

Sjá einnig umfjöllum um snuð í fyrirspurnum 27. júlí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.