Alltaf nokkrar kommur...

08.04.2005

Þessi spurning er ekki beint um brjóstagjöf heldur um heilsu litlu stelpunnar minnar. Í eina viku hefur hún haft á bilinu 37,4 til 37,9 kommur! Ég vandi mig á frá byrjun að mæla hana reglulega til að sjá hver væri hennar likamshiti (mæli hana alltaf í rassinn) og það var alltaf 37,1. Hún er viðkvæm þessa dagana,en drekkur þó vel og sefur vel á nóttunni (6 til 9 tíma) en bara eins og þrjá til fjóra 20 mín blunda yfir daginn (hún er akkúrat 3ja mán.) Ég myndi sjálf giska á að þetta væru tennur því hún nagar báðar lúkurnar sínar eins og hún fengi borgað fyrir það og slefar rosalega mikið (hún fæddist með 2 tennur svo kannski fær hún tennur í fyrri kantinum) en málið er að mér finnst hún ekkert bólgin í munninum!

Ég bý á Spáni og hér er sagt að þegar mælt sé í rassinn þá á alltaf að taka 0,5 af (mælandi 37,6 þá væri það bara 37,1)og þetta segja bæði hjúkkur og læknar,er það rétt?

Þeir segja líka að börn með sveppasýkingu á tungunni geta fengið hita,er það rétt? (hún er samt ekki með svoleiðis)

Svo sagði mér manneskja hér í dag að það væri betra að vera með mikinn hita í stuttan tíma heldur kommur í marga daga?????er það rétt?

Kær kveðja mamman og litla stelpan.

................................

Komið þið sælar mamma og litla stelpa, þakka ykkur fyrir fyrirspurnina.

Það er vel þekkt fyrirbæri að ung börn séu með nokkrar kommur dag frá degi. Þau hafa mjög óþroskað hitajafnvægi fyrstu mánuðina og getur hitinn raskast örlítið dag frá degi. Það er ekki talið að börn séu með hita fyrsta árið nema hitinn fari yfir 38°C.

Vísindin segja ekki frá hita við tanntöku en það er reynsla margra foreldra að börn séu einmitt með nokkrar kommur í þó nokkuð langan tíma við tanntöku. Eins og þú lýsir henni er eins og gómurinn pirri hana og það getur verið í allt að 2 - 3 mánuði áður en tennurnar koma í gegn.

Ef barnið er eðlilegt í hegðun og útliti, borðar, drekkur og sefur þá myndi ég halda að þessar kommur væru saklausar.

Ég hef aldrei áður heyrt að börn fái hita með sveppasýkingu á tungu.

Almennt séð er það rétt að lítill hiti í langan tíma sé verri en hár í nokkra daga en það á frekar við eldri börn og fullorðna eins og ég sagði áðan þá er hitajafnvægið viðkvæmt hjá mjög ungum börnum.

Í sambandi við að bæta við kommum við hitamæla þá eru heilbrigðisstarfsmönnum á Íslandi kennt það að kvikasilfurmælir í rass mæli rétt hitastig. Hins vegar dregur maður 0,5°C  af munnmælum.

Ef þú ert óörugg með þessar kommur þá mæli ég með að þú látir lækni líta á barnið þitt.

Ég vona að þetta hjálpi þér,

með kveðju,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. apríl 2005.