Apgar 6/9

15.11.2005

Hvað er 6/9 í Apgar?

........................................................................

Hæ, hæ og takk fyrir að leita til okkar!

Vissir þættir í líkamsstarfsemi nýbura eru metnir til stigagjafar eftir aðferð sem kennd er við svæfingalækninn Virginíu Apgar (1909-1974). Fyrri stigagjöfin fer fram einni mínútu eftir fæðingu og seinni stigagjöfin fimm mínútum eftir fæðingu. Þeir þættir sem eru metnir eru hjartsláttur, öndun, vöðvaspenna, svörun við áreiti og húðlitur.  Með þessari stigagjöf er verið að meta hvort barnið þurfi stuðning við mikilvæga líkamsstarfsemi á fyrstu mínútum lífsins.

 • Hjartsláttur
  • Hraðari en 100 slög á mínútu = 2 stig
  • Hægari en 100 slög á mínútu = 1 stig
  • Enginn hjartsláttur = 0 stig
 • Öndun
  • Eðlileg, góð = 2 stig
  • Hæg, óregluleg = 1 stig
  • Engin öndun = 0 stig
 • Vöðvaspenna
  • Kröftugar hreyfingar = 2 stig
  • Hreyfir lítið = 1 stig
  • Hreyfir sig ekki, slakir vöðvar = 0 stig
 • Svörun við áreiti
  • Grætur kröftuglega = 2 stig
  • Grætur eða grettir sig = 1 stig
  • Engin svörun = 0 stig
 • Húðlitur
  • Allur líkaminn rauður = 2 stig
  • Líkaminn rauður en hendur og fætur eru bláar = 1 stig
  • Fölur, blár = 0 stig

Besta mögulega stigagjöf er 10 (2 stig fyrir hvern þátt) en mjög sjaldgæft er að börn fái 10 eftir eina mínútu og jafnvel ekki eftir 5 mínútur því fæst börn eru með rauða útlimi eftir 5 mínútur. Börn sem fá undir 7 í Apgar eftir eina mínútu hafa að öllum líkindum þurft aðstoð frá fagfólki s.s. örvun, sog úr öndunarvegi eða súrefni en barn sem fær 7 eða meira hefur líklega spjarað sig sjálft, án aðstoðar.  Ef barn fær ekki 7 eða meira í Apgar eftir 5 mínútur er líklegt að það þurfi áfram aðstoð frá fagfólki þar til það jafnar sig.

Ef barn hefur fengið 6 og 9 í Apgar er því líklegt að það hafi þurft lítils háttar aðstoð frá fagfólki rétt eftir fæðinguna en síðan tekið vel við sér og því fengið fína einkunn eftir 5 mínútur.

Vona að þetta svari spurningunni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
15. nóvember 2005.