Spurt og svarað

28. janúar 2008

Að fyrirbyggja magakveisu

Ég er að hugsa um þessa blessuðu magakveisu sem hrjáir margt ungbarnið. Á von á litlum dreng í vor. Á annan fyrir sem var mikið kveisubarn fyrstu 3 mánuðina. Við reyndum margt, án árangurs og þetta var vægast sagt mikil þolraun, þ.s. annað okkar var í krefjandi námi og við nýflutt til annars lands. Gæti trúað að stressið í okkur hafi haft sín áhrif á litla kútinn. Núna eru aðstæður langtum betri, en ég velti fyrir mér hvort mataræði og líðan á meðgöngu geti haft áhrif á maga barnsins. Hef heyrt að kveisan sé algengari hjá strákum. Er eitthvað sem maður getur gert til að fyrirbyggja, eða minnka líkur á að barnið fái kveisu?

 


Komdu sæl.

Eins og þú veist örugglega, er ekki vitað hvað veldur ungbarnakveisu og þar af leiðandi ekki hægt að segja hvernig má fyrirbyggja hana.  Börn eru misviðkvæm fyrir umhverfisáreitum en sennilega hefur stress í umhverfinu áhrif á flest þeirra, þó við vitum ekki hvort það valdi kveisunni.  Það er hugsanlegt að viðkvæmni í meltingarvegi hafi eitthvað að segja um ungbarnakveisu en ég kem nú ekki auga á það hvernig mætti fyrirbyggja það á meðgöngu en sumar fæðutegundir sem mamman borðar geta aukið á óværðina (sjá "Óværð barna" bæklingur gefinn út af Heilsugæslunni).  Mjólkur- eða fæðuóþol geta líka hugsanlega valdið ungbarnakveisu en þá er oft um önnur einkenni að ræða líka og börnin þyngjast illa.  Að lokum er talið að reykingar geti valdið óværð og því er um að gera að hætta þeim (ef það á við).

Ekki hefur verið sýnt fram á mun milli drengja og stúlkna hvað varðar algengi magakveisu.

Vona að þetta gangist eitthvað.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
28. janúar. 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.