Spurt og svarað

11. mars 2014

Að sofna sjálf

Góðan daginn.
Þessi síða gagnaðist mér afsakaplega vel á meðgöngunni og ég hef ekki tölu á þeim atriðum sem ég hef flett upp hér. Bestu þakkir fyrir þennan frábæra gagnabanka! Nú á ég þriggja mánaða gamla stúlku og við erum að reyna að koma á einhverri svefnreglu. Hún er heilshraust og virðist líða mjög vel, nærist mjög vel og sefur vel á daginn. Hún sofnar auðveldlega sjálf þegar hún tekur daglúrana sína, bæði í vöggunni sinni og úti í vagni. Það þarf ekki einu sinni að rugga henni í vagninum eða ganga með hana, heldur sofnar hún stundum strax þegar ég er að koma henni fyrir vagninum. Við eigum hins vegar í vandræðum með að ná henni niður á kvöldin. Við höfum undanfarið verið að reyna að koma reglu á svefninn hennar á kvöldin með því að búa til rútínu sem er alltaf eins. Við klæðum hana í náttfötum, gefum henni að drekka, eigum með henni rólega stund, leggjum hana í rúmið og lesum fyrir hana. Hún virðist kunna að meta þetta þótt hún skilji auðvitað ekki það sem við erum að lesa því hún sofnar oft út frá lestrinum. En sama hvort hún sofnar við lesturinn eða ekki, þá megum við alltaf búast við því að hún fari að gráta mjög fljótlega, yfirleitt eftir 10-30 mínútur. Hún grætur síðan bæði mikið og hátt, jafnvel þótt okkur finnist hún líta út fyrir að vera grútsyfjuð þegar hún er lögð í rúmið, stundum í allt að þrjá klukkutíma. Við höfum reynt að fara inn til hennar með reglulegu millibili til að róa hana, gefum henni snuð, strjúkum á henni vangann eða höldum stutt í hendina á henni. Við þetta róast hún oftast en fer síðan að gráta aftur um leið og við förum aftur út úr herberginu. Þegar hún svo loksins sofnar þá sefur hún yfirleitt vel og 5-6 tíma samfleytt. Okkur virðist á öllu þessu sem það sé ekkert að hrjá stelpuna okkar, þ.e. henni líði beinlínis ekki illa fyrst hún róast alltaf þegar við sinnum henni. Hún virðist bara alls ekki vilja vera ein í myrkrinu og hvorki heyra til okkar né sjá. Getið þið gefið okkur einhver ráð? Er óraunhæft að ætla henni að læra að sofna sjálf bara þriggja mánaða gömul? Eigum við að vera að gera eitthvað öðruvísi? Eða þurfum við bara að halda þetta lengur út?

Komdu sæl.
Frábært að heyra að þú hefur getað nýtt þér síðuna okkar.
Stelpan ykkar er einmitt á þeim aldri þar sem hægt er að fara að kenna henni að búa til ákveðnar svefnvenjur. Frábært hjá ykkur að vera komin með ákveðna rútínu fyrir svefninn því það er hluti af þessu öllu. Mér langar til þess að benda þér á þessa grein um svefnvenju barna, 
þar ættir þú að finna svör við spurningunum þínum. Eitt sem mig langar til að benda ykkur á er að leggja hana niður í rúmið sitt vakandi. Það er mjög mikilvægt til þess að hún læri að þarna sofnar hún.
Gangi ykkur vel.

Kveðja,
Súsanna Kristín Knútsdóttir,
Ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. mars 2014.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.