Spurt og svarað

07. júní 2005

Aðskilnaður móður og barns eftir fæðingu

Sælar og takk fyrir frábæra síðu!

Mig langar að spyrja ykkur varðandi áhrif aðskilnaðar móður og barns strax eftir fæðingu. Barnið mitt var tekið frá mér strax eftir fæðingu og ég fékk það ekki fyrr en 3 tímum seinna. Ég er alltaf að heyra að það sé rosalega slæmt og geti valdið áfalli hjá barninu o.s.frv. Barnið mitt er mjög óvært og ekkert finnst að því. Getur aðskilnaðurinn við fæðingu verið ástæða óværðarinnar? Ef svo er, er þetta þá bara eitthvað sem ekkert er hægt að gera við og verð ég bara að sætta mig við þetta? Mér finnst þetta alveg hræðilega leiðinlegt og ég fæ alltaf hnút í magann þegar ég heyri um mikilvægi þess að leyfa barninu að fara beint á brjóst og fá að vera í fanginu á móðurinni strax við fæðingu. Mér finnst eins og ég hafi gert eitthvað vitlaust og að ekkert sé hægt að gera til að bæta fyrir þetta. Get ég búist við öðrum afleiðingum þessa í framtíðinni?

Með fyrirfram þökk.

.................................................................

Komdu sæl Eyrún og takk fyrir að leita til okkar og til hamingju með barnið þitt!

Það er leitt að heyra, að þið skylduð hafa verið aðskilin fyrstu þrjá tímana eftir fæðinguna, en það hljóta að hafa verið gildar læknisfræðilegar ástæður fyrir því. Barn er ekki aðskilið frá móður strax eftir fæðingu, nema rík ástæða sé fyrir hendi, til að tryggja heilsu barnsins t.d. ef það á erfitt með öndun strax eftir fæðinguna og stynur við að anda, er oft þörf á að fylgjast með barninu á Vökudeild í hitakassa, e.t.v. með aukasúrefni í ákveðinn tíma, þar til það hefur jafnað sig og er farið að anda eðlilega.

Það er ekkert, sem þú hefðir getað gert öðruvísi til að koma í veg fyrir það, enda ákvörðun og ábyrgð barnalæknis. Mér þykir leiðinlegt að heyra, að þú ásakir sjálfa þig fyrir aðskilnaðinn og þér skuli líða eins illa og þú lýsir í fyrirspurninni og get fullvissað þig um, að þú gerðir ekkert vitlaust og ert greinilega mjög umhyggjusöm og góð móðir, sem berð hag barnsins þíns fyrir brjósti. Reyndu að losa þig við þessar neikvæðu tilfinningar því þær gera ekkert nema brjóta niður sjálfstraustið þitt og það er ekki það, sem þú og barnið eigið skilið eða þurfið á að halda núna.

Það er rétt hjá þér, að það er jákvæðast að sleppa alveg við aðskilnað móður og barns fyrst eftir fæðinguna en við verðum stundum að sætta okkur við aðskilnaðinn og í svona stuttan tíma ætti það ekki að koma að sök. Þann tíma er mögulegt að vinna upp, treysta böndin og njóta til fullnustu með samveru t.d. í tengslum við brjóstagjöf og umönnun, sem þú hefur áreiðanlega gert nú þegar. Aftur á móti, þegar ungbarn er óvært geta legið að því margar ástæður, sem getur verið flókið að finna en þið foreldrarnir komist vonandi til botns í sem fyrst, í samvinnu við ungbarnaverndina ykkar. Það getur verið mjög krefjandi verkefni fyrir ykkur ef barnið er óvært og að sama skapi gefandi, þegar barnið hættir því. Mér finnst mjög ólíklegt, að aðskilnaðurinn fyrst eftir fæðinguna valdi óværð hjá barninu eða muni hafa einhverjar aðrar afleiðingar, en fáið endilega aðstoð með þetta hjá ungbarnaverndinni ykkar.

Tengslamyndun á milli móður og barns (bonding) er tilfinning, sem flæðir á milli frá foreldri til barns (einstefna) og gerist oftast strax og móðirin fær barnið í fangið eftir fæðinguna. Þetta er tilfinning hlýju, væntumþykju eða ástar, ásamt tilfinningu um að vilja vernda barnið af umhyggju fyrir velferð þess og vilja til að vera ætíð hjá barninu. Ef barn er aðskilið frá móður strax eftir fæðinguna í stuttan tíma (eins og í þínu tilfelli, í 3 klst.), truflast eða frestast þetta flæði tilfinninga oft um þann tíma, sem aðskilnaðinum nemur. Þú hefur áreiðanlega unnið upp þann tíma á næstu þremur dögunum eftir fæðinguna, en einmitt á þeim tíma treystast þessi tilfinningatengsl. Hins vegar myndast í beinu framhaldi af þessum tengslum önnur mikilvæg tilfinningatengsl (attachment) á milli móður og barns (foreldra/barns eða umönnunaraðila/barns), sem þróast smám saman á milli ykkar fyrsta æviár barnsins. Ein fyrsta svörun barnsins verður, þegar móðirin nær augnsambandi við barnið, síðan fer það að brosa til hennar og hjal, við sex vikna aldur og svo frv. Þær tilfinningar flæða í báðar áttir (tvístefna) frá móður til barns og frá barni til móður. Sú þróun á sér stað við gagnkvæm samskipti ykkar við umönnum barnsins til að fullnægja öllum grundvallarþörfum þess og myndar grundvöll að þróun sjálfstæðis barnsins, síðar meir á ævinni.

Vona að þetta svari fyrirspurninni og gangi þér vel

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. júní 2005.

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.