Spurt og svarað

09. febrúar 2015

Barnahægðatregða.

Sæl. Dóttir mín er rúmlega 3ja vikna og hefur ekki kúkað núna síðan á sunnudagskvöld  og fyrir það liðu 2 sólahringar. Hún er núna nánast eingöngu á brjósti en hefur fengið Nan mjólk þegar ég skrepp frá og hún er með pabba sínum (hún fékk þessa mjólk fyrstu vikuna sina upp á spítala þegar við vorum þar). Núna hefur hún ekkert fengið nema brjóstamjólk, en enginn kúkur ennþá. Hún rembist og rembist, en kemur bara loft. Er eitthvað sem ég get gert? Hef verið að strjúka magann, hreyfa lappirnar hennar, hafa hana í "klósett stellingu" og var að setja hana í bað til að fá hana að slaka á fyrir nætursvefninn. Er eitthvað annað töfraráð? Finnst þetta svo langur tími og mjög erfitt að sjá hana rembast við þetta, gráta og eiga erfitt með að sofa.

 

Heil og sæl og til hamingju með dótturina. Það er oft svo að börn kúka nánast í hverja einustu bleiu til að byrja með en svo hættir það og geta margir dagar liðið á milli. Þetta er talið alveg í lagi og engra aðgerða er þörf hjá börnum sem eru eingöngu eða nær eingöngu á brjósti. Ég hef oft séð líða marga daga og allt upp í þrjár vikur án þess að neitt sé að og á endanum kúka þau. Mér sýnist þú nota öll þau heimaráð án inngripa sem eru notuð. Ef að hún er mjög óvær með þessu og þér finnst eins og henni líði illa þá er stundum gefið malt extract en ég ráðlegg þér að ráðfæra þig við hjúkrunarfræðing í ungbarnaeftirliti áður. Ef hún er búin með allar heimavitjanir getur þú hringt í hana. Gangi þér vel.

Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
09.feb.2015

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.