Barnið tárast

03.02.2007

Sælar og takk fyrir frábæran vef sem hefur hjálpað mér mikið.

Ég er með eina mánaðar gamla og hún tárast svolítið mikið frá öðru auganu hennar. Augað virðist ekki vera rautt en það lekur nánast stanslaust úr því og það myndast einskonar stýrur.  Á ég að fara með hana til læknis strax eða er þetta eitthvað sem er meinlaust og líður hjá?

Bestu kveðjur, Anna.

 


 

Komdu sæl Anna og til hamingju með dótturina.

Sennilega stafar þetta af stífluðum táragöngum sem eru algeng hjá svona litlum börnum.  Þú getur hjálpað með því að nudda aðeins á mótum augnkróks og nefs og ættu þau þá að opnast en ekki fyrr en eftir nokkra daga eða jafnvel vikur.  Gott er að nudda nokkrum sinnum á dag t.d. alltaf þegar þú gefur brjóst.  Ekki þarf að nudda fast og gott er að nudda alltaf í sömu átt, niður nefið.

Gangi ykkur vel 

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
03.02.2007.