Betra snuð

26.02.2009

Sæl!

Takk fyrir æðislegan vef! Ég hef mikið verið að berjast við snuðið hjá 5 mánaða dóttir minni. Þegar hún er að fara sofa þá bara getur hún ekki haldið því uppí sér sem gerir það að við þurfum að halda við snuðið alveg þangað til hún sofnar. Svo er hún nýfarin að taka uppá því að vakna rosalega oft á næturnar til þess að við setjum snuðið upp í hana. Hún fær pela tvisvar yfir nóttina en vaknar ábyggilega hátt uppí í 15 sinnum til að kalla eftir snuðinu sínu. Eru einhver snuð til sem haldast betur uppí börnum? Er til eitthvað leyniráð?

Kveðja,
ein sem er alveg að verða úrvinda af svefnleysi.

 


Sæl!

Það eru til margar tegundir af snuðum og misjafnt hvaða tegundir henta hvaða barni. Eina sem ég get ráðlagt þér varðandi tegundir er að prófa þig áfram. Eitt ráðið varðandi það að halda við snuðið er að rúlla upp taubleyju og setja við snuðið en það verður að gæta þess að hún fari ekki fyrir vitin á barninu. Ef barnið er á mikilli hreyfingu dugir þetta skammt.

Varðandi það að barnið sé að vakna svo oft á nóttunni og kalla eftir aðstoð snýst kannski ekki endilega aðallega um snuðið sjálft. Á þessum aldri er barnið að átta sig á því að með ákveðinni hegðun fær það þjónustu. Þetta gerist um og eftir 4 mánaða aldri. Dóttir þín er á góðum aldri til þess að læra að róa sig sjálf þegar hún losar svefn og um að gera að venja hana á það núna. Ráð varðandi hvernig þið snúið ykkur í þessu getið þið fundið á www.foreldraskoli.is . Það er einnig spurning hvort hún geti hætt að drekka pela á nóttunni .

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. Febrúar 2009.