Spurt og svarað

06. ágúst 2008

Efri og neðri mörk blóðþrýstings

Góðan daginn og takk fyrir góðan vef. Hann hefur alveg bjargað mér.

Mig langaði að forvitnast í sambandi við of háan blóðþrýsting. Hver er munurinn þegar efri mörkin hækka eða þegar neðri mörkin hækka? Ég var að koma frá ljósmóðir - var send heim úr vinnunni því að ég var með hausverk og eldrauð í framan. Ljósmóðirin mældi blóðþrýstingin og hann var 150/80. Ég fékk meðgöngueitrun með fyrra barnið mitt og þá voru það neðri mörkin sem hækkuðu, fóru mest upp í 120 og þá var ég send beint upp á spítala. Ljósmóðirin sagði að efri mörkin mættu ekki fara yfir 145 en ég á að hvíla mig þangað til á morgun og sjá hvernig ég verð. Endilega þegar þið hafið tíma þá væri fínt að fá útskýringu á efri og neðri mörkum, ég skil nefnilega ekkert í því.

Með fyrirfram þökk Bumbulína :)


Sæl og blessuð!

Neðri mörk blóðþrýstings eru sá þrýstingur sem er stöðugt á blóðrásarkerfinu en efri mörkin eru alltaf hærri því það er sá þrýstingur sem er á kerfinu þegar hjartað dælir súrefnisríku blóði frá hjartanu og út í blóðrásarkerfið. Yfirleitt hækka bæði neðri og efri mörk á sama tíma en efri mörk geta hækkað tilfallandi t.d. við streitu eða erfiði.

Það voru því alveg rétt viðbrögð við þessu ástandi hjá þér að hvíla þig og sjá hvort blóðþrýstingurinn lækkaði ekki við það.  Á síðustu meðgöngu hefur þú líklega verið með alvarlega meðgöngueitrun fyrst neðri mörkin voru svona há.

Það kallast væg meðgöngueitrun þegar blóðþrýstingur er >140/90 eða hækkun um 30 í efri mörkum og 15 í neðri mörkum frá blóðþrýsting í fyrstu skoðun og 300 mg próteinútskilnaður á 24 tímum sem samsvarar um 2+ á stixi. Það kallast alvarleg meðgöngueitrun þegar efri mörk blóðþrýstings eru 160 eða hærri eða neðri mörk 110 eða hærri og próteinútskilnaður 5 grömm eða meira á einum sólarhring (samsvarar 4+ á stixi).

Vonandi svarar þetta spurningunni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. ágúst 2008.

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.