Blóðtaka úr hæl nýbura (PKU/TSH)

04.02.2007

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég á eina 3 mánaða skvísu er búin að vera að velta því fyrir mér hvort það sé nauðsynlegt að láta taka blóð úr hæl nýfæddra barna. Ég man nú ekki hvað þessir sjúkdómar heita sem var verið að leita að, en ef ég man rétt þá eru þeir arfgengir. Ef enginn í hvorki minni ætt né ætt mannsins míns eru með þessa sjúkdóma, er þá ekki eins hægt að sleppa þessari rannsókn á börnunum okkar. Mér finnst frekar ómannúðleg aðferð sem er beitt við að ná þessu blóði úr barninu og ég kem til með að hugsa mig tvisvar um áður en ég leyfi ljósmóður aftur að halda sjóðandi heitum þvottapoka um fót barnsins míns og kreista svo líftóruna úr hælnum til að ná nokkrum blóðdropum úr honum á meðan barnið öskrar af sársauka og ekki bara í örfáar sekúndur, heldur nokkrar mínútur. Af hverju er þessari aðferð beitt en ekki bara tekið blóð með sprautu?

Þú verður að afsaka ef ég hljóma ásakandi, það er bara svo sárt að sjá þessi kríli þjást og ég vil helst ekki þurfa að horfa upp á þetta aftur.

Með fyrirfram þökk, Ásta.


Sæl!

Þessi aðferð hefur verið notuð í mörg ár. Það er að vísu hægt að taka úr æð hjá barninu það er ekki eins sársaukafullt en mikið nákvæmnisverk og krefst þess að fagmaðurinn nái færni í því með þjálfun. Ef þessi blóðprufa er tekin þegar barnið er farið að fá meira að drekka t.d. á 5.degi þá rennu blóðið oft betur og ekki þarf að kreista eins mikið. Einnig er oft betra að barnið sé á brjósti þegar prófið er tekið. Ég vil samt benda á að þegar fagmenn eru búnir að venja sig á visst vinnulag er oft erfitt að skipta yfir í annað sem tekur jafnvel mun lengri tíma. Sem betur fer eru börnin fljót að jafna sig og muna þetta ekki.  Einnig minni ég á að þessi rannsókn á þessum tímapunkti skiptir sköpum fyrir þá sem eru haldnir þessum sjúkdómi og þetta er allt gert í þágu velferðar barna okkar.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. febrúar 2007.