Spurt og svarað

04. nóvember 2005

Brosa og hjala :- )

Ég 7 vikna gamlan son. Fyrir þónokkru byrjaði hann að brosa en hann gerir það mjög sjaldan. Kannski einu sinni á dag og ekki einu sinni alltaf hverjum degi.  Hann hjalar dálítið en alls ekki mikið. Ég næ alveg augnsambandi við hann en hann heldur því ekkert lengi. Ef ég er að geifla mig framan í hann þá verður hann oft allur uppverðaður og spriklar í allar áttir en hann brosir samt ekki. Er það alltí lagi?  Stundum samt þegar ég er að reyna að spjalla við hann þá horfir hann í allar aðrar áttir en á mig. Honum virðist líða vel og er rólegur og góður. Hann er líka alveg styrkur og sterkur strákur. Svo var ég líka að spá. Hann er mjög gjarn á að reigja sig og horfa upp (upp í áttina að enninu á sér). Hann gerir þetta sérstaklega þegar hann liggur í einhvers staðar, sérstaklega í vagninum. Annars lítur hann vel út og mér finnst hann vera bara venjulegt barn. Veit samt ekkert um það þar sem hann er mitt eina.

Bestu kveðjur, Hanna.

................................................................................................


Komdu sæl Hanna og til hamingju með soninn.

Mér heyrist þú vera að velta fyrir þér, hvort drengurinn þinn þroskist eðlilega. Það er eðlilegt, að þú veltir því fyrir þér á þessum tímapunkti og sýnir að þú ert ábyrgt foreldri og berð umhyggju fyrir barninu þínu. Að meðaltali byrja flest börn að brosa við sex vikna aldur og fara síðan fljótlega að hjala. Sum byrja svolítið fyrr en önnur svolítið seinna. Á þessum aldri ætti barnið einnig að fylgja þér (eða hlutum og/eða dóti) eftir með augunum ef  þú ert í beinni sjónlínu við barnið. Hversu mikið þau brosa er afstætt en það er talað um í þroskalegu samhengi, að börn brosi við fólki, þegar talað er við þau. Augnsamband við nýbura næst yfirleitt á fyrstu dögum eftir fæðingu. Það sem þú nefnir í fyrirspurninni varðandi son þinn virðist mér vera mjög jákvætt. Þú nærð augnsambandi við hann og hann er farinn að brosa, þó kannski ekki eins mikið og þú vildir og sýnir önnur viðbrögð eins og spriklar út í allar áttir, þegar þú geiflar þig framan í hann. Það er erfitt að meta þessa reigingu, sem þú nefnir, þegar han liggur í einhvers staðar, en mér finnst eðlilegt að þú orðir allar þessar vangaveltur þínar við hjúkrunarfræðinginn eða lækninn í ungbarnaverndinni þinni. Þau hitta ykkur og fylgjast með þroskalegum áföngum hjá barninu og meta þá, en það er mikilvægt fyrir þau að heyra frá þér, ef þú hefur einhverjar áhyggjur af barninu í þessu tilliti.

Með bestu kveðju og gangi ykkur vel,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. nóvember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.