D vítamín og óværð

02.07.2009

Hæ.

Ég á 11 vikna dreng sem nærist og dafnar vel. Hann hefur aðeins verið með smá kveisu á kvöldin (frá 20-22) og verður þá mjög reiður á brjóstinu og grætur. En það er samt alveg hægt að hugga hann ef ég læt hann bara hætta að drekka.  Ég hætti um daginn að gefa honum D-dropana í viku og svo um leið og ég byrjaði á að gefa honum þá aftur þá finnst mér þessi kveisa vera komin aftur á kvöldin.  Eru dæmi um að þessir dropar fari illa í magann á börnum?  Má ég prufa að gefa honu lýsi í staðinn? 

Takk fyrir frábæran vef

Kveðja María

 


 

 Komdu sæl María.

Óværð á kvöldin er algeng og tengist frekar þreytu barnsins eftir daginn og svo því að brjóstamjólkin er ekki alveg eins saðsöm á kvöldin og fyrripart dags.  Oftast dugar að hafa barnið meira á brjósti en þú talar um að láta hann hætta að drekka.  Er hann þá ekki bara saddur?

Ef þú ert að gefa D vítamínið á morgnanna þá er óværðin á kvöldin ekki þess vegna.  En ef þú ert að gefa það seinni part dags er það til í dæminu (en þó mjög sjaldgæft) að svona gömul börn þoli það ekki.  Þú mátt gefa honum krakkalýsi en þá bara byrja rólega og auka smám saman upp í 5 ml á dag.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
2. júlí 2009.