Eftir legvatnsástungu

16.01.2009

Sæl og takk fyrir fræðilegan og góðan vef.

Þannig er mál með vexti að ég fór í legvatnsástungu fyrir viku síðan. Mér hafði kviðið mikið fyrir - en þetta var miklu minna mál en ég hélt og fann ég ekki fyrir neinu, hvorki eftir né núna. En nú hefst hin hræðilega bið! Verst við þetta allt saman er biðin eftir niðurstöðunum, og hugsa ég stanslaust um símtalið sem ég á eftir að fá. Svo er náttúrlega talað um 1% hættu á fósturláti eftir ástunguna. Mín einlæga spurning er þessi: Hversu lengi er maður talinn vera í hættu að missa fóstur eftir legvatnstungu? Eru það fyrstu dagarnir eftir stunguna sem eru taldir vera "critical" eða er það tíminn sem maður bíður niðurstaðna úr stungunni s.s 2-3 vikur? Er maður í aukinni hættu við að missa fóstur restina af meðgöngunni af því maður fór í legvatnssástungu? Mér þætti vænt um að fá svar við þessu sem fyrst, því ég er að verða frekar taugaveikluð með þetta allt saman. Finnst ég finna samdráttarverki, en samt ekki, það kom einn lítill blóðdropi í útferð hjá mér í dag og síðan ekki meir- en ofan á allt saman þá líður mér mjög vel og er farinn að finna hreyfingar hjá krílinu (þetta er mitt 3ja barn) eru það ekki örugglega 2-3 vikur sem tekur að fá niðurstöðurnar úr prófinu? Er nokkuð hægt að hringja á fósturgreiningadeildina og fá einhverjar fréttir af hvernig ræktunin miðar áfram?

Ein að farast úr áhyggjum.


Sæl!

Mesta hættan á fósturláti er fyrstu þrjá dagana  á eftir ástungunni, en hættan er ekki liðin hjá fyrr en eftir 2-3 vikur. Það tekur oftast 10-14 daga að fá niðurstöðu úr ástungunni og verður hringt í þig um leið svar liggur fyrir. Ef þú hefur áhyggjur af fóstrinu þá er einfaldast að tala við ljómóðurina þína og fá hana til að hlusta eftir fósturhljóðum.

Kveðja og gangi þér vel,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreinardeildar LSH,
16. janúar 2009.