Fatnaður á ungbörn

26.08.2008

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef.

Ég er að velta fyrir mér nú á ég u.þ.b. 2½ mánuð eftir af meðgöngunni og er búin að þvo þau föt sem ég á núna á barnið. Þarf að þvo fötin aftur? Þarf ekki að þvo öll ný föt áður en þau eru notuð?


Sæl nóvemberbumba!

Ég tel æskilegt að þvo öll föt sem þú ætlar að nota á ungabarn. Það er ágætt að nota milt þvottaefni sem ætlað er ungum börnum (t.d. Milt fyrir barnið) eða sem innihalda ekki ertandi lyktar- og litarefni (t.d. Neutral). Sumir hafa vanið sig á að þvo ungbarnafatnað einungis með vatni. Þegar þú hefur þvegið fatnaðinn er gott að ganga frá honum í hreina plastpoka og loka þeim og geyma fatnaðinn þannig þangað til þú ferð að nota hann. Þá ætti ekkert ryk og óhreinindi að geta komist í fatnaðinn og þú ættir ekki að þurfa að þvo hann aftur.

Með kveðju,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. ágúst 2008.