Flatt höfuð

28.04.2008

Mig langar til að spyrjast fyrir um höfuðlag. Þegar ég eignaðist son minn fyrir þremur árum átti hann að sofa á hliðinni, þá skiptum við um hlið samviskusamlega. Nú eiga ungabörn að sofa á bakinu. Ég var í ungbarnaeftirliti með yngri son minn og hún tók eftir því hversu flatt höfuðið hans væri og sagði að það gæti vel verið að þetta gengi ekki til baka er það rétt? Hann sefur auðvitað á bakinu, svo liggur hann á bakinu á teppinu sínu og situr í ungbarnastól. Við æfum hann auðvitað í því að liggja á maganum er það er nú ekki langur tími í einu.Börn ná fljótt getu til þess að snúa höfðinu þegar þau liggja á bakinu.  Ef hann snýr alltaf höfðinu til sömu hliðar getur verið ágætt að hafa myndir hinum megin við höfuðið til að fá hann til að snúa þangað, og jafnvel vefja upp taubleyju til að styðja við höfuðið. Þið ættuð þá líka að tala um þetta við lækninn ykkar í ungbarnaverndinni.

Ég hef persónulega ekki heyrt að flatt höfuð vegna legu gangi ekki til baka, þvert á móti gengur það fljótt til baka þegar barnið hættir að liggja svona mikið á sömu hliðinni.  Hinsvegar er höfuðlag mismunandi og það ráðurm við ekkert við, og gengur ekki til baka.  Sumir eru bara með flatara höfuðlag en aðrir.

Vona að þetta svari spurningunni.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
28. apríl 2008.